Kór Kvennaskólans í Kaupmannahöfn

Kór skólans fór í söngferð til Kaupmannahafnar dagana 20. – 23. febrúar s.l. Kórinn hélt tvenna formlega tónleika.

Á fimmtudagskvöldið söng kórinn í Kristkirke en þar er menningardagskrá vikulega – Natkirke.  Farið var í þriggja tíma skoðunarferð um danska þjóðminjasafnið, Nationalmuseum, og sungið í lokin í anddyri þess. Kórinn söng einnig á Ráðhústorginu fyrir gangandi vegfarendur. Á föstudagskvöldið var sameiginlegur kvöldverður á skemmtilegu veitingahúsi (Pizza) og þar söng kórinn nokkur lög og hópar tróðu upp með skemmtiatriði. Strikið var auðvitað gengið fram og aftur og hópur fór í gönguferð í gegnum fríríkið Kristjaníu.

Síðasta daginn, sunnudag, hélt kórinn tónleika í Jónshúsi og fékk að skoða þar íbúð (safn) Jóns Sigurðssonar.

Gunnari Ben kórstjóra og kórfélögum öllum þakka ég fyrir mjög skemmtilega og góða ferð og læt hér fylgja nokkrar myndir sem ég tók.

Ingibjörg skólameistari.