Berlínarferð nemenda í ÞÝS 473

Föstudaginn 4. mars, hélt hópur nemenda í ÞÝS 473 í ferð til Berlínar ásamt kennurum áfangans, Björgu Helgu Sigurðardóttur og Guðrúnu Erlu Sigurðardóttur. Í hópnum voru 22 nemendur í 3. og 4. bekk. Nemendur höfðu fyrir ferðina kynnt sér eitt og annað um Berlín og unnu m.a. kynningar um þekktustu staðina. Ferðin heppnaðist í alla staði frábærlega og margt var skoðað og gert. Fyrsta kvöldið gekk hópurinn um Potsdamer Platz og að Brandenborgarhliðinu. Á laugardeginum var farið í langa skoðunarferð um austur- og vesturhluta borgarinnar með íslenskum fararstjóra, Lilju Hilmarsdóttur, og um kvöldið borðaði hópurinn saman hjá ,,Postulunum 12”. Að því loknu var farið í göngutúr á breiðgötunni Unter den Linden og m.a. aðalbygging hins þekkta Humboldt háskóla skoðuð að kvöldi. Snemma á sunnudegi var farið í heimsókn í þinghúsið þar sem starfsmaður tók á móti hópnum og fræddi um sögu hússins. Þennan dag fór hópurinn einnig í DDR – safnið og kynnti sér lífið í gamla Austur-Þýskalandi. Síðan skiptum við liði og fóru sumir í dýragarðinn á meðan aðrir skoðuðu Mauerpark flóamarkaðinn. Á mánudeginum var farið í Checkpoint Charlie safnið um Berlínarmúrinn, eftir það var frjáls tími fram að brottför og kíktu sumir aftur í H&M safnið (!) en aðrir fóru í göngutúr um gamla miðbæinn austanmegin. Allir voru duglegir að nota þýskukunnáttu sína sem gladdi kennarana í hópnum ósegjanlega mikið. Framkoma nemenda í ferðinni var til fyrirmyndar. Komið var heim aðfararnótt þriðjudagsins 8. mars eftir ógleymanlega ferð.