Peysufatadagur og Íþróttaskóli ársins 2010

Peysufatadagur 3. bekkinga er miðvikudaginn 21. apríl, síðasta vetrardag.

Dagskráin er í aðalatriðum þessi:
7:50  Mæting fyrir utan Kvennaskólann til að taka rútu.
8:00  Morgunmatur í boði Sambands ungra sjálfstæðismanna.
9:15  Dansað fyrir utan menntamálaráðuneytið.
10:00  Dansað á Ingólfstorgi.
11:15  Komið að Kvennaskólanum og dansað og sungið.
Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, kemur og afhendir nemendum verðlaunabikar vegna þess að skólinn er Íþróttaskóli ársins 2010 á meðal framhaldsskóla. Með ráðherra koma Jóhanna María Eyjólfsdóttir sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu og Þorgrímur Þráinsson sem hefur verið verkefnisstjóri við Íþróttavakninguna.
Meðal gesta okkar verður Aðalsteinn Eiríksson fyrrverandi skólameistari.
12:05  Dansað á Grund.
13:00  Dansað á Hrafnistu Reykjavík.
14:00  Kvennaskólinn – myndataka og í framhaldinu heitt kakó og vöfflur í mötuneytinu.

Peysufatadagurinn – sagan í stuttu máli
Það mun hafa verið venja á dögum frú Þóru Melsteð að stúlkurnar gengju á íslenskum búningi í skólann. Með tímanum breyttist það eins og annað og þegar kom fram um 1920 gengu aðeins sumar stúlknanna í slíkum búningi í skólanum. Það mun hafa verið vorið 1921 sem stúlkurnar tóku sig allar saman um að gera það til hátíðabrigða að koma á peysufötum til skólans og gera sér ofurlítinn dagamun á eftir. Þetta var fyrsti peysufatadagurinn og hefur hann jafnan verið endurtekinn einu sinni á vetri síðan með vaxandi viðhöfn. (Heimild: Kvennaskólabókin 1974, AE).