Útskrift stúdenta!

Föstudaginn 20. desember voru 27 stúdentar útskrifaðir frá Kvennaskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju. Kór Kvennaskólans söng og nýstúdent Laufey María Jóhannsdóttir flutti ávarp. Einnig lék Ingunn Erla Kristjánsdóttir nýstúdent einleik á selló.
Veitt voru verðlaun fyrir góðan námsárangur. Efst á stúdentsprófi og dúx hópsins er Ingunn Erla Kristjánsdóttir og hlaut hún verðlaun úr Minningarsjóði frú Þóru Melsteð, stofnanda Kvennaskólans í Reykjavík. Ingunn Erla hlaut einnig verðlaun í þýsku. Stúdentspennann úr verðlaunasjóði dr. Guðrúnar P. Helgadóttur fyrir besta lokaverkefnið hlaut Aldís Edda Ingvarsdóttir og íslenskuverðlaunin úr Móðurmálssjóði hlaut Glódís Perla Viggósdóttir. Viðurkenningu fyrir mikil og góð störf í þágu nemendafélagsins Keðjunnar hlutu Íris Indriðadóttir og Sóley Riedel.