Ljóð vikunnar er eftir Jóhannes úr Kötlum(1899-1972)

Jóhannes ( Jónasson) út Kötlum (1899-1972) var fæddur að Goddastöðum í Dölum. Hann lauk kennaraprófi 1921 og starfaði sem kennari í Dölum og síðar við Austurbæjarskólann í Reykjavík. Hann bjó um nítján ára skeið í Hveragerði en fluttist svo til Reykjavíkur. Seinni hluta ævi sinnar fékkst Jóhannes við ritstörf en var oft á sumrin umsjónarmaður Ferðafélags Íslands í Þórsmörk. Hann starfaði einnig mikið að félagsmálum og stjórnmálum ásamt því að vera afkastamikið skáld og rithöfundur. Hann þýddi bæði ljóð og skáldsögur og sá um útgáfu ljóðabóka.

Víkivakar

Sunnan yfir sæinn breiða
sumarylinn vindar leiða
-draumalandið himinheiða
hlær og opnar skautið sitt.
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Aa...
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Gakk þú út í græna lundinn,
gáðu fram á bláu sundin
-mundu að það er stutt hver stundin
stopult jarðneskt yndið þitt.
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Aa...
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!


Allt hið liðna er ljúft að geyma,
láta sig í vöku dreyma.
Sólskinsdögum síst má gleyma
-segðu engum manni hitt.
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Aa...
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Jóhannes úr Kötlum

Lag : Valgeir GuðjónssonHér í flutningi Skólakór Kársness

http://www.youtube.com/watch?v=KPRZLBbrQXo