Skólaslit Kvennaskólans í Reykjavík

Kvennaskólanum í Reykjavík var slitið í 132. sinn við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju 26. maí að viðstöddu fjölmenni. Brautskráðir voru 107 stúdentar að þessu sinni.
Hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut Ester Anna Pálsdóttir, nemandi á náttúrufræðibraut, en hún útskrifaðist með einkunnina 9,04. Hæst á félagsfræðabraut var Unnur Tómasdóttir með einkunnina 9,01 og á málabraut hlaut Harpa Sif Haraldsdóttir hæstu einkunnina 8,85. Dúx skólans á bekkjarprófi var Nanna Einarsdóttir, nemandi í 3. bekk á náttúrfræðibraut, með einkunnina 9,8. Í öðrum bekk var Sigurlaug S. Friðþjófsdóttir nemandi á félagsfræðabraut hæst með einkunnina 9,4 og í 1. bekk hlaut María Lind Sigurðardóttir nemandi á náttúrufræðibraut hæstu einkunnina 9,6.
Brottfall úr skólanum var tæplega 3% í vetur.
Verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur í ýmsum greinum á stúdentsprófi. Ester Anna Pálsdóttir hlaut Stúdentspennann 2006 úr verðlaunasjóði dr. Guðrúnar P. Helgadóttur fyrir bestu stúdentsritgerðina og aðalverðlaun skólans, verðlaun úr Minningarsjóði frú Þóru Melsteð, stofnanda Kvennaskólans í Reykjavík, fyrir hæstu meðaleinkunn og besta heildarárangur á stúdentsprófi 2006. 
Útskrift Kvennaskólans í Hallgrímskirkju 2006
Unnur Tómasdóttir flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta. Kór Kvennaskólans söng við athöfnina og Bryndís Helgadóttir nýstúdent söng einsöng.
Við útskriftina flutti Bjarni Ólafur Ólafsson ávarp fyrir hönd 20 ára stúdenta og afhenti 76 þúsund króna peningagjöf í málverkasjóð skólans. Fulltrúar 50 ára afmælisárgangsins færðu skólanum 50 þúsund króna peningagjöf í Móðurmálssjóð. Fulltrúar 60 ára og 25 ára afmælisárganganna heimsóttu einnig skólann.