Frábær frammistaða í naumu tapi

Það var mikil spenna sem var boðið upp á í Smáralind í kvöld þegar lið Kvennaskólans og MH áttust við í átta liða úrslitum Gettu Betur. Staðan var jöfn í lokin, en þá hafði hvort lið fyrir sig hlotið 27 stig. Því var gripið til framlengingar og ekki minnkaði spennan því grípa þurfti til aukaspurninga í framlengingunni til að knýja fram úrslit. Að lokum urðu Kvenskælingar að játa sig sigraða þegar MH-ingar náðu að svara lokaspurningunni rétt og lokatölur urðu 28-29.
Þau Gísli  Erlendur Marínósson 2NÞ, Jörgen Már Ágústsson 2NÞ og Þórdís Inga Þórarinsdóttir 4FS stóðu sig frábærlega og voru nemendafélaginu og skólanum til mikils sóma.
Þá var skemmtiatriði Kvennaskólans ekki af verri endanum því Andri Björn Róbertsson, nemandi í 3. bekk, söng einsöng og gerði það listavel.
Stemmningin í salnum var mögnuð og létu Kvenskælingar vel í sér heyra. Þetta kvöld verður örugglega lengi í minnum haft.

Myndir (Teknar af útsendingu Sjónvarpsins):
Lið Kvennaskólans: Gísli  Erlendur Marínósson 2NÞ, Jörgen Már Ágústsson 2NÞ og Þórdís Inga Þórarinsdóttir 4FS.

Andri Björn Róbertsson söng einsöng.