Nám og kennsluhættir

Nám og kennsluhættir í Kvennaskólanum eiga að stuðla að alhliða þroska nemenda og einkennast af virðingu fyrir einstaklingnum og þörfum hans. Í samræmi við námskrá frá 2008 er aðaláhersla lögð á virkni nemandans, þ.e. hvað nemandinn er að læra/gera í náminu og hvaða hæfni hann öðlast. Mikil áhersla er því lögð á verkefnamiðað nám sem hefur í för með sér að nemandinn ber aukna ábyrgð á námi sínu. Skólastarfið miðar að því að gera nemendur virka og sjálfstæða í námi sínu og færa um að afla sér þekkingar á eigin spýtur ásamt því að æfa þá í að tjá skoðanir sínar og útskýra verklag.

Fjölbreytni í vinnubrögðum og kennsluaðferðum er ein forsenda þess að nemendur öðlist margvíslega hæfni. Mikilvægt er að hafa í huga að mismunandi hæfniviðmiðum er hægt að ná á margvíslegan hátt og að sömu aðferðir henta ekki öllum nemendum jafn vel. Kennsluhættir eru miðaðir við að veita öllum nemendum tækifæri til að nýta hæfileika sína og gefa þeim kost á að fá endurgjöf á vinnu sína. Fjölbreyttar leiðir eru notaðar til að meta hæfni nemenda og veita þeim leiðsögn í átt að settu marki.

Námsbrautir Kvennaskólans eru þrjár, félagsvísinda-, hugvísinda-  og náttúruvísindabraut. Þær eru skilgreindar út frá þriggja ára námstíma en auðvelt er fyrir nemendur að lengja þann tíma um eina eða tvær annir en fylgja samt bekknum sínum fyrstu þrjú árin. Lágmarkseiningafjöldi hverrar bóknámsbrautar til stúdentsprófs er 200. Kjarni hverrar brautar er 157 einingar og 43 einingar eru að vali hvers nemanda.

Stærsti hluti kjarnans er tekinn fyrri tvö árin þótt nemendur taki valáfanga bæði árin en á þriðja ári er valið tæplega helmingur námsins. Kjarninn er einnig að hluta til valkvæður á tveimur brautum. Félagsvísindabraut velur sér tvær af sérgreinum brautarinnar til frekari sérhæfingar, 20 einingar alls og hugvísindabrautin velur um tvær meginlínur, þ.e. 15 einingar, annaðhvort í 4. máli eða í listasögu og menningarlæsi. Reynt er að tryggja töluverða bekkjakennslu á sama tíma og sjálfstætt val nemenda er í heiðri haft.

Ýmsir skólar og deildir háskóla setja inntökuskilyrði eða leggja inntökupróf fyrir umsækjendur og eru nemendur eindregið hvattir til að kynna sér þessi mál, t. d. hjá námsráðgjafa og hjá viðkomandi skólum og haga námi sínu í samræmi við það.