Framhaldsskólar skulu koma til móts við þarfir nemenda af erlendum uppruna með íslensku­kennslu og fræðslu um íslenskt samfélag og menningu, liðsinni við heimanám, jafningjastuðningi og öðrum þeim ráðum sem að gagni mega koma. Sérstaklega skal huga að þeim nemendum sem eru íslenskir en hafa dvalið langdvölum erlendis. Margir þeirra þurfa á hliðstæðri aðstoð að halda og nemendur af erlendum uppruna.

Framhaldsskóla er heimilt að meta móðurmál nemenda til eininga í frjálsu vali eða til eininga í stað annars erlends tungumáls. Nemanda ber þó að sýna fram á kunnáttu sína í tungumálinu í stöðuprófi. Miða skal við að nemendur með annað móðurmál en íslensku fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu sem valgrein óski þeir þess.

Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku, eiga rétt á kennslu í íslensku. Sama gildir um heyrnarskerta nemendur. Nemendur, sem hafa dvalið utan Norðurlanda á grunnskólaaldri, geta sótt um að taka annað tungumál í staðinn fyrir Norðurlandamál. Nemendur, sem fengið hafa undanþágu frá námi í Norður­landa­máli í grunnskóla, geta einnig fengið undanþágu frá Norðurlandamáli í framhalds­skóla. Þeir skulu þó taka aðra grein í staðinn.