Í jóla- og vorprófum bera náms- og starfsráðgjafar ábyrgð á að nemendur með greinda sértæka námsörðugleika og nemendur haldnir kvíðaröskunum eða öðrum sjúkdómum fái að taka próf í sérstofu sem fyrst og fremst felur í sér meira næði en í almennum prófstofum. Þeir skrá nemendur í sérstofuna og koma upplýsingum til kennara um hvaða nemendur taka prófin sín þar. Lögð er áhersla á að nemendur sæki sjálfir um að vera í sérstofu og fari í forviðtöl.

Nemendur sem hafa skilað inn greiningum eiga kost á að fá próf á lituðum pappír og með stækkuðu letri. Einnig er mögulegt að fá að taka próf á fartölvu sem skólinn útvegar ef nemandi á erfitt með skrif til að mynda vegna slyss eða fötlunar. Nemendur með greinda sértæka námsörðugleika geta átt kost á að prófatriði séu lesin upp og spiluð í sérstökum heyrnartólum. Í samráði við kennara getur nemandi átt kost á að taka próf munnlega en það verður að vera utan hefðbundins próftíma í greininni þar sem kennari þarf að vera til taks í prófstofum fyrir aðra nemendur.

Leitað er leiða í hverju og einu tilviki fyrir sig til að koma til móts við nemanda í vanda. Enginn afsláttur er gefinn af námsmati nemenda enda stríðir það gegn jafnræðisreglu. Hins vegar er í sérstökum tilfellum gefinn möguleiki á að nemandi fái að skila verkefni eða taka próf seinna til að mynda vegna veikinda.