Nýnemakvöld:
Kvöldið er góð leið til að kynna fyrir nýjum nemendum starfsemi skólans og nemendafélagsins og síðast en ekki síst að veita þeim tækifæri til að kynnast hvert öðru. Skemmtinefnd  ákveður  hefðbundna dagskrá fyrir kvöldið þar sem nemendur hvers bekkjar stíga upp á svið og sýna atriði.

           

 

Nýnemaferð:
Nemendur í 1. bekk fara í dagsferð út á land. Með í för eru kennarar og stjórn nemendafélagsins. Tilgangur ferðarinnar er að gefa nýnemum tækifæri til að eiga góða stund saman utan veggja skólans og stunda skemmtilega og heilbrigða útiveru. Einnig fá þeir sem eru í forsvari fyrir félagslíf skólans tækifæri til að kynnast hópnum.

 

 

 

 

Peysufatadagur:
Peysufatadagurinn er gömul hefð innan skólans og er eitt af því sem nemendur minnast lengi.  Frá því um 1921 tóku stúlkurnar sem voru nemendur við Kvennaskólann sig allar saman um að gera það til hátíðabrigða að koma á peysufötum í skólann og gera sér ofurlítinn dagamun á eftir. Þetta var fyrsti peysufatadagurinn og hefur hann verið endurtekinn árlega síðan þá.  Á peysufatadaginn  klæðast nemendur 2. bekkjar að þjóðlegum sið, dansa og syngja saman í Hallargarðinum fyrir aðra nemendur, starfsfólk Kvennaskólans og foreldra. Þau dansa einnig víðar um borgina t.d. á elliheimili, Ingólfstorgi og einnig fyrir starfsfólk Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

 

Epladagur:
Epladagurinn er í nóvember og hefur verið haldinn hátíðlegur í Kvennaskólanum í Reykjavík síðan 1921. Sögu dagsins má rekja til þess tíma þegar aðeins voru stúlkur við nám í skólanum og á heimavist. Þær komust ekki allar heim um jólin og héldu þá til í skólanum um hátíðirnar, héldu jólaskemmtun fyrir kennarana og hlutu epli að launum. Núna er dagurinn með öðru sniði en í upphafi og hefst á því að fyrir hádegi ganga fulltrúar nemendafélagsins í bekki og bjóða upp á epli. Samkvæmt venju fara bekkirnir saman út að borða um kvöldið, oftast með umsjónarkennaranum sínum, og síðan er dansleikur. Leyfi er gefið í fyrsta tíma daginn eftir.

 

 

Tjarnardagar:
Á Tjarnardögum fellur hið hefðbundna skólastarf niður og boðið er upp á ýmiss konar námskeið og fræðslu. Tjarnardagar enda með árshátíð Keðjunnar.

 

Góðgerðadagur:
Á góðgerðadegi, sem haldinn er í árshátíðarvikunni vinnur hver bekkur góðgerðastarf í samstarfi við góðgerðafélag sem þeim hefur verið úthlutað. Vinnan getur verið fólgin í því að vinna að einhverjum sérstökum verkefnum í samvinnu við félögin, söfnun eða kynningu á þeim svo eitthvað sé nefnt.

                             

 

Rymja:
Rymja er söngkeppni Kvennaskólans í Reykjavík og er árlegur viðburður. Vinningshafar keppninnar verða svo fulltrúar skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna.

Kór:
Við skólann er starfandi blandaður kór skipaður nemendum.  Hann heldur m.a. tónleika, kemur fram á ýmsum uppákomum innan skólans, fer í söngferðir innan lands og/eða utan og tekur þátt í kóramótum framhaldsskóla. Einnig syngur kórinn við útskrift stúdenta bæði í desember og í lok skólaárs. Efnisskrá kórsins er fjölbreytt.  Á tónleikum flytur kórinn gjarnan nýjar útsetningar á vinsælum dægurlögum, ásamt því að syngja hefðbundin kórverk úr ýmsum áttum.

Fúría:
Fúría er leikfélag skólans sem hefur verið öflugt undanfarin ár. Það setur árlega upp metnaðarfulla leiksýningu. Fúría hefur einnig staðið fyrir spuna- og leiklistarnámskeiðum undanfarin ár.

Viðarstokkur:
Listanefnd Kvennaskólans stendur árlega fyrir góðgerðatónleikum sem nefnast Viðarstokkur. Hagnaður af tónleikunum rennur óskiptur til einhvers góðs málefnis.

 

Listavika:
Listanefnd Kvennaskólans stendur fyrir listaviku ár hvert. Þá er mikið um að vera í skólanum, alls kyns uppákomur bæði á skólatíma og á kvöldin. Góðgerðatónleikarnir Viðarstokkur eru hluti listavikunnar.

 

Dimmisjon:
Á dimmisjon kveðja nemendur sem eru að útskrifast úr Kvennaskólanum kennara sína, starfsfólk skólans og yngri nemendur.  Útskriftarnemendur klæðast skrautlegum búningum og flytja skemmtiatriði. Útskriftarnemendur og kennarar borða síðan saman og skemmta sér fram eftir kvöldi.