Framtíðarsýn og áherslur

Kvennaskólinn í Reykjavík hefur ávallt lagt metnað sinn í að aðlagast nýjum aðstæðum hverju sinni en byggja þó á gömlum og traustum grunni góðrar kennslu og hefða. Staðsetning skólans við Tjörnina, í hjarta borgarinnar, er mjög góð og þjónar vel nemendum af öllu höfuðborgarsvæðinu.

Framtíðarsýnin er sú að skólinn þróist áfram í takt við strauma og stefnur í menntamálum ungs fólks á hverjum tíma. Stefnt er að því að námið og starfsemi skólans almennt byggi á grunnþáttunum sex; þ.e. skapandi starfi, menntun til sjálfbærni, læsi í víðum skilningi, heilbrigði og velferð, jafnrétti og lýðræði og mannréttindum og verður áfram unnið að því að þessir þættir verði eðlilegur hluti skólastarfsins alls.

Skólinn leggur áherslu á að veita nemendum sem besta menntun í námsumhverfi þar sem þeim líður vel og læra að bera ábyrgð á námi sínu. Einnig er það haft að leiðarljósi að sinna öllum nemendum vel, jafnt þeim sem skara fram úr og vilja ná langt í námi sínu og þeim sem standa höllum fæti og þarfnast meiri aðstoðar og utanumhalds.

Skólinn mun hér eftir sem hingað til leggja áherslu á samfélagslega meðvitund nemenda með það að markmiði að útskrifa nemendur sem gera samfélagið betra. Sérstök áhersla verður lögð á metnað og ábyrgð í námi, persónuleg og hlýleg samskipti, gildi tjáningar og þá samskiptahæfni sem nauðsynleg er í samskiptum ólíkra einstaklinga í ólíkum aðstæðum.