Menntun og grunnþættir

Kvennaskólinn er menntaskóli sem býður upp á hefðbundið bóknám til stúdentsprófs. Námið er eingöngu staðnám og námstími er sveigjanlegur; þ.e. nemendur geta valið hvort þeir ljúka náminu á 3, 3,5 eða 4 árum. Skólinn byggir á bekkjakerfi og val nemenda eykst í síðari hluta námsins.

Eitt helsta markmið skólans er að veita nemendum haldgóða og vandaða menntun og búa þá sem best undir frekara nám. Áhersla er lögð á stöðuga og vandaða vinnu nemenda, góða kennslu, fjölbreytta kennsluhætti og ólík viðfangsefni. Gagnrýnin skapandi hugsun er í hávegum höfð, svo og sjálfstæð og öguð vinnubrögð. Þjálfun samvinnu er einnig ríkur þáttur í skólastarfinu. Samband árangurs og erfiðis í náminu er undirstrikað og nemendum gert ljóst að stöðug og góð vinna yfir veturinn reynist jafnan farsælust. Leitast er við að gera raunsæjar kröfur og veita nemendum uppbyggilega endurgjöf. Gott dæmi um vandaðan undirbúning undir framhaldsnám er svokallað lokaverkefni, þ.e. stór heimildaritgerð eða rannsóknarskýrsla í félagsvísindum sem nemendur  vinna á lokaári sínu undir handleiðslu kennara með sérþekkingu á viðkomandi sviði. Einnig er gerð krafa um hátt hlutfall 3. þreps áfanga í vali nemenda.

Lögð er áhersla á sex grunnþætti í öllu skólastarfinu; læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun. Þessa grunnþætti sem og einkunnarorð skólans, menntun – þekking – þroski, hafa starfsmenn Kvennaskólans í Reykjavík að leiðarljósi í öllu starfi sínu, jafnt í kennslustundum sem í öðrum þáttum starfseminnar. Markmiðið er að búa nemendur undir að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi, að nemendur taki ábyrga afstöðu til umhverfismála, geri sér grein fyrir ábyrgð og áhrifum mannsins á vistkerfi jarðar og beiti sér fyrir varðveislu jarðargæða fyrir komandi kynslóðir.