Nemendur sem vantar undirstöðu í íslensku

Þegar nemendur hafa verið innritaðir í Kvennaskólann kanna náms- og starfsráðgjafar og íslenskukennarar hvort í hópnum séu einstaklingar sem dvalist hafa langdvölum erlendis, annaðhvort Íslendingar eða af erlendum uppruna, og þurfi á aðstoð að halda.  Engir sérstakir áfangar eru í boði fyrir þennan hóp en kennarar vekja oft athygli á, ýmist við náms- og starfsráðgjafa eða stjórnendur, að nemandi virðist þurfa stuðning í íslensku. Oft hafa stjórnendur frumkvæði að því að biðja íslenskukennara að kanna hvort tiltekinn nemandi þurfi stuðning í íslensku.

Leiða er leitað í hverju og einu tilviki til að koma til móts við viðkomandi nemanda. Stuðningur getur t.d. falist í sérstakri íslenskukennslu fyrir einstaklinga eða litla hópa. Kennsluna annast íslenskukennarar skólans sem eru þjálfaðir í að kenna íslensku sem móðurmál en ekki sem erlent mál.

Í sumum tilfellum felst stuðningurinn í aðstoð við að lesa og skilja  námsefni í ýmsum námsgreinum, þar sem mikið reynir á orðaforða og lesskilning.

Stundum leita þessir nemendur til náms- og starfsráðgjafa að eigin frumkvæði til að fá aðstoð við að finna leiðir til að viðhalda móðurmáli sínu og þá er þeim yfirleitt bent á fjarnám við aðra skóla þar sem tungumálanám í Kvennaskólanum takmarkast við dönsku, ensku, frönsku, þýsku, spænsku og táknmál. Þeir geta fengið slíkt nám metið til eininga óski þeir þess.

Í Aðalnámskrá framhaldsskóla er kveðið á um að framhaldsskólar skuli m.a. sinna eftirfarandi þáttum:

  • kennslu í íslensku fyrir nemendur af erlendum uppruna
  • aðstoð í íslensku við Íslendinga sem dvalist hafa langdvölum erlendis
  • liðsinni við heimanám.

Í þeim tilvikum sem þessi þjónusta er ekki nægileg er leitað sértækra úrræða í samráði við nemendur og forráðamenn.