Velferð nemenda

Aðkoma skólans að velferð nemenda felst meðal annars í því að lögð er áhersla á að stuðla að líkamlegu, andlegu og félagslegu heilbrigði nemenda. Skólinn tekur nú þátt í verkefninu Heilsueflandi skóli sem er á vegum Lýðheilsustöðvar. Höfuðáhersla verkefnisins er á fjögur viðfangsefni, þ.e.a.s. næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl en eitt viðfangsefni er tekið fyrir á hverju ári.

Fyrsta árið (2012-13) sem unnið var að verkefninu var áhersla lögð á næringu. Í mötuneyti skólans er boðið upp á hollan mat dag hvern. Í kjarnaáföngum í íþróttum er markviss fræðsla um mataræði, hvað felst í hollri og góðri næringu og hver næringarþörf er með tilliti til vinnu og daglegrar hreyfingar. Einnig er rætt um neikvæð áhrif áfengis-, tóbaks- og lyfjaneyslu á líkama og heilsu. Í íþróttum er líka fjallað um forvarnargildi líkams- og heilsuræktar og eru nemendur hvattir til að hlúa að andlegri, líkamlegri- og félagslegri vellíðan sinni til framtíðar.

Veturinn 2013-14 var áherslan á hreyfingu. Skólinn tók þátt bæði í Hjólum í skólann sem fram fór í september, í Lífshlaupinu sem fram fór í október og Hjólum í vinnuna sem fór fram í maí. Í mars voru haldnir Litlu Ólympíuleikar Kvennaskólans þar sem bekkir kepptu sín á milli í ýmsum þrautum.

Veturinn 2014-2015 var ár geðræktar í verkefninu. Lögð var áhersla á að fræða starfsfólk skólans um ýmislegt tengt geðrækt ásamt hvatningu um að huga að henni í öllum samskiptum í skólanum. Lykilorð verkefnisins var virðing.

Veturinn 2018-19 verður megináherslan á geðrækt.