Skólabragur

Skólabragur Kvennaskólans einkennist af heimilislegu andrúmslofti, jákvæðni, góðri umgengni, góðum samskiptum nemenda og starfsfólks og gagnkvæmri virðingu þeirra á milli. Leitast er við að stuðla að vellíðan allra í skólanum og koma til móts við ólíkar þarfir eftir því sem frekast er unnt.

Lögð er áhersla á vinnusemi nemenda og að góður vinnufriður ríki í kennslustundum.  Aðstoð við nemendur með námsörðugleika eða önnur sértæk vandamál er veitt eftir því sem kostur er og þar kemur öflug námsráðgjöf skólans oft við sögu. Reynt er að grípa í taumana og sporna gegn brottfalli áður en í óefni er komið hjá einstaka nemendum án þess þó að slá af námskröfum skólans. Á þennan hátt vonast starfsmenn skólans til að hlúð sé að alhliða þroska, sjálfstrausti, umburðarlyndi og víðsýni hvers og eins.