Hegðun og umgengni

Til þess að ná þeim markmiðum skólans að búa nemendur undir að takast á við kröfur daglegs lífs, framhaldsnám og störf er nauðsynlegt að þeim sé skapað gott námsumhverfi. Skólinn lítur svo á að forsenda þess að slíkt megi takast sé að nemendur og starfsmenn skólans sýni hver öðrum fyllstu kurteisi og tillitssemi í kennslustundum sem utan þeirra. Vinnufriður á að ríkja í tímum. Kennari er verkstjóri í kennslustundum og það hefur í för með sér að nemendum ber að fara að fyrirmælum hans svo allir sem mættir eru í tímann geti unnið að námi sínu. Nemendum ber að mæta á réttum tíma, vera undirbúnir, með viðeigandi námsgögn og vera virkir í kennslustundum.

Notkun farsíma og annarra  snjalltækja í kennslustundum er óheimil nema því aðeins að hún sé í þágu kennslunnar og er háð samþykki kennara hverju sinni.

 Nemendur bera sjálfir ábyrgð á verðmætum sínum.

Í umhverfisstefnu skólans /lisalib/getfile.aspx?itemid=9247 eru þau markmið sett að umgengni í skólanum, bæði innanhúss og utan, verði stórbætt og gengið þannig frá hnútunum að umhverfið þoli það álag sem hlýst af því að svo stór hópur fólks ferðist stöðugt á milli þriggja húsa.

Nemendum ber að ganga vel um húsnæði skólans og lóð.

Nemendum ber að fara vel með þá muni skólans sem þeir nota og þeir fá að láni í tengslum við kennslu eða aðra starfsemi í skólanum.

Spjöll/skemmdir sem nemendur kunna að vinna á húsnæði skólans eða eigum hans skulu þeir bæta að fullu.