Starfsmannastefna Kvennaskólans í Reykjavík

Starfsmannastefna Kvennaskólans í Reykjavík er unnin í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamningum á hverjum tíma.

Starfsmannastefnan er viljayfirlýsing stjórnenda skólans til þess að gera Kvennaskólann í Reykjavík að góðum vinnustað þar sem gott og skapandi starf er unnið af áhugasömu, samstilltu, vel menntuðu og ábyrgðarfullu fólki í anda jafnréttis. Starfsmannastefna skólans miðar að því að tryggja starfsmönnum hans góð starfsskilyrði  og aðstæður til þess að dafna í starfi. Stefnt er að því að það þyki eftirsóknarvert að starfa við Kvennaskólann í Reykjavík vegna þess skólabrags sem þar ríkir.

Markmiðið með stefnunni er að stuðla að því að Kvennaskólinn gegni hlutverki sínu svo sem kveðið er á í lögum um framhaldsskóla og uppfylli réttmætar væntingar sem gerðar eru til skólans og starfsmanna hans. Til þess að svo megi verða þarf skólinn að hafa á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem eru tilbúnir til þess að leggja honum til starfskrafta sína og vinna af einhug að þeirri stefnu, sem mörkuð hefur verið hvað varðar kennslu, fræðslu og þjónustustarfsemi. Þeir þurfa einnig að vera tilbúnir til þess að bregðast við síbreytilegum þörfum nemenda og þjóðfélagsins.

Stefnt er að því að allir kennarar skólans séu með kennsluréttindi og aðrir starfsmenn með sérhæfingu á sínu sviði. Starfsmenn skólans eru valdir af kostgæfni á þann hátt að menntun þeirra og hæfileikar nýtist markmiðum skólans sem best.

Leiðarljós starfsmannastefnunnar eru:

  • Samvinna og sveigjanleiki
  • Vellíðan á vinnustað
  • Viðleitni til að skapa starfsmönnum aðstæður til að samræma starf og einkalíf
  • Að starfsmenn njóti hæfileika sinna og menntunar
  • Að skólinn sé lærdómsvinnustaður

 

Starfsmannastefna og aðgerðaáætlun

Starfsfólk

Ráðningar

Við Kvennaskólann í Reykjavík er lögð áhersla á að ráða ávallt hæft starfsfólk til starfa. Til að tryggja það er horft til menntunar og reynslu þess sem ráðinn er. Lögð er áhersla á að ráða til starfa fólk sem hefur til að bera góða samskiptahæfni, sköpunargleði og áhuga á að vinna með ungu fólki. Við ráðningu er þess gætt að byggja á málefnalegum forsendum og rökstuðningi sem kynni að verða leitað eftir. Meginregla er að auglýsa öll laus störf, einnig verkefnastjórastöður og nefndarstörf innanhúss.

Við úrvinnslu umsókna er leitað álits þeirra sem starfa munu nánast með hinum nýja starfsmanni, viðtöl eru tekin við þá sem helst koma til greina út frá menntun, hæfni og reynslu og meðmæla leitað. Gefa skal trúnaðarmanni upplýsingar um ef staða losnar eða í ráði er að bæta við starfsmanni. Jafnframt skal láta honum í té upplýsingar um ráðningarkjör og hverjir sækja um starfið sbr. 30. grein laga nr. 94 frá 1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Öllum umsækjendum er tilkynnt um niðurstöðu þegar hún liggur fyrir.

Móttaka nýrra starfsmanna

Kvennaskólinn í Reykjavík leggur áherslu á að taka vel á móti nýju starfsfólki og veita því fræðslu um helstu þætti í starfi skólans. Mikilvægt er að tryggja starfsfólki allar nauðsynlegar upplýsingar og kynningu á vinnustað og því fá allir nýir starfsmenn afhenta Handbók nýrra starfsmanna Kvennaskólans. Starfslýsing skal ávallt liggja fyrir þegar ráðið er í nýtt starf. 

Þróun í starfi/símenntun

Í Kvennaskólanum í Reykjavík er starfsfólki gert kleift að efla þekkingu sína og hæfni í samræmi við síbreytilegar kröfur á vinnustaðnum. Kvennaskólinn vill skapa starfsfólki sínu skilyrði til að þróast í starfi og hafa áhrif á starfsumhverfi sitt. Allt starfsfólk skólans er hvatt til að viðhalda færni sinni og auka menntun sína með símenntun. Starfsfólk skal leitast við að laga sig að síbreytilegum kröfum sem starfið gerir til þess til dæmis vegna tækninýjunga og faglegrar þróunar. Starfsmenn bera sjálfir ábyrgð á starfsþróun sinni í samráði við stjórnendur og fagstjóra.

Starfsmannasamtöl

Mikilvægt er að starfsfólk fái notið hæfileika sinna í starfi og sé meðvitað um fagvitund sína. Starfsmaður á rétt á starfsmannasamtali að minnsta kosti þriðja hvert ár.

Starfslok/sveigjanleiki

Við ákvörðun um starfslok skal fara eftir þeim lögum og reglugerðum sem í gildi eru hverju sinni. Komi til uppsagnar starfsfólks skal framkvæmdin vera samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70 frá 1996, vera vel rökstudd og studd faglegu mati. Við starfslok vegna aldurs leitast skólinn við að finna farsælar lausnir í samráði við viðkomandi starfsmann, báðum aðilum til hagsbóta.


Skólinn sem vinnustaður

Vinnuvernd

Skólinn leggur áherslu á að ætíð sé fylgt þeim reglum sem gilda um málefni er tengjast vinnuumhverfi. Öryggistrúnaðarmaður hefur það hlutverk að gæta þess að orðið sé við öllum eðlilegum öryggiskröfum á vinnustaðnum.

Öryggismál

Viðbragðs-  og rýmingaráætlun skal vera öllum kunn í skólanum og æfingar haldnar í upphafi hvers skólaárs. Þar sem skólinn er í þremur mismunandi húsum skal huga sérstaklega að öryggi þeirra sem þurfa að fara á milli húsa t.d. með hálkuvörnum.

Fjölskyldan

Starfsfólki skal gert mögulegt að samræma einkalíf og vinnu, meðal annars með sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem kostur er. Starfsmönnum skal gert kleift að sinna tímabundinni fjölskylduábyrgð sem skapast af veikindum í nánustu fjölskyldu. Ekki er litið á það sem mismunun þó tekið sé tillit til kvenna vegna þungunar, barnsburðar og brjóstagjafar. Á sama hátt sýnir starfsmaður sveigjanleika ef aðstæður á vinnustað kalla á tilfærslur/breytingar. Ætíð þarf þó slíkur sveigjanleiki að rúmast innan kjarasamninga.

Heilsueflandi vinnustaður

Í Kvennaskólanum í Reykjavík er áhersla lögð á vellíðan á vinnustaðnum og starfsfólk er hvatt til að tileinka sér jákvæðan og heilbrigðan lífsstíl.

Markmið

Aðgerð

Ábyrgð

Bjóða upp á hollan og góðan mat

Kanna viðhorf starfsfólks til matarins sem boðið er upp á og hollustu hans

Stjórnendur og matráður

Hvetja starfsfólk til heilbrigðs lífsstíls og vistvæns ferðamáta

Vitundarvakning með kynningum og hvatningu, t.d. til að taka þátt í Hjólað í vinnuna og Lífshlaupinu.

Forvarnarfulltrúi, umhverfisnefnd, sjálfbærnihópur og stýrihópur Heilsueflandi skóla.

Stjórnendur

Stjórnunarhættir

Stjórnunarhættir í Kvennaskólanum í Reykjavík eiga að vera lýðræðislegir og sanngjarnir þar sem unnið er að hugmyndafræði og markmiðum í samráði við starfsfólk. Stjórnendur skólans bera ábyrgð á að upplýsingaflæði sé gott og boðleiðir skýrar. Stjórnendur ásamt starfsmönnum bera í sameiningu ábyrgð á því að laun séu rétt. Stjórnendur komast að niðurstöðu um álitamál með lýðræðislegum hætti og bera ábyrgð á að ágreiningsmál fari í réttan farveg. Þeir aðstoða við lausn ágreiningsmála en skulu þó gæta sanngirni gagnvart báðum aðilum. Stjórnendur  bera ábyrgð á að vinnuaðstaða starfsfólks og tækjakostur séu eins góð og kostur er á hverju sinni. Stjórnendur bera ábyrgð á að langtímamarkmiðum skólans sé náð.