Áfallaáætlun

Skilgreining á áfalli

Áfall getur m.a. merkt þungbær reynsla svo sem alvarleg slys, hættulegir sjúkdómar eða dauði. Þegar eitthvað slíkt kemur upp á sem snertir nemendur og/eða starfsfólk skóla kemur til kasta áfallaráðs sem fer með verkstjórn í framhaldinu.

 

Almennt um áfallahjálp

Þegar áfall sem snertir nemendur og/eða starfsfólk hefur dunið yfir er mikilvægt að þeir einstaklingar sem mynda áfallaráðið geti unnið undir miklu álagi, séu rólegir og gefi þeim sem þeir aðstoða nægan tíma. Hlutverk þeirra er að veita viðeigandi upplýsingar um það sem gerðist, reyna að segja sem réttast frá, hughreysta, styðja, veita hlýju og öryggi án þess að vera uppáþrengjandi. Miklu skiptir að þeim, sem fyrir áfalli hafa orðið, finnist þeir geta treyst þeim sem aðstoða þá. Einnig er nauðsynlegt að meðlimir áfallaráðsins átti sig á að viðbrögð við áföllum eru einstaklingsbundin og að sama meðferð hentar ekki öllum.

 

Áfallaráð Kvennaskólans

Hjalti Jón Sveinsson skólameistari, Oddný Hafberg aðstoðarskólameistari, Ína Björg Árnadóttir námsráðgjafi og Lilja Ósk Úlfarsdóttir kennari og sálfræðingur.

 

Hlutverk áfallaráðs

Hlutverk áfallaráðs er að taka stjórnina og bregðast við í kjölfar áfalls. Áfallaráð setur sér verklagsreglur.

 

Viðbrögð við áfalli

•Tilkynna á áfall í skólanum til neyðarlínu í síma 112
•Hafa skal strax samband við skólameistara eða aðstoðarskólameistara
•Starfsmaður sem kemur að áfalli skráir hjá sér vitni sem voru að atburðinum og lætur skólameistara fá listann
•Áfallaráð metur hver skuli annast stuðning við nemanda/nemendur, sem tengjast áfalli, og forráðamenn
•Skólameistari eða aðstoðarskólameistari hefur samband við umsjónarkennara þess nemanda sem áfallið snertir
•Áfallaráð metur hvernig upplýsingum er komið á framfæri
•Samskipti við lögreglu og fjölmiðla eru í höndum skólameistara
•Starfsmenn skrifstofu fá upplýsingar og sjá um að halda boðleiðum opnum.