Eineltisáætlun

Stefnuyfirlýsing

Einelti er ekki liðið í Kvennaskólanum, hvorki meðal starfsfólks né nemenda. Starfsmannastefna skólans miðar að því að tryggja starfsmönnum hans góð starfsskilyrði og aðstæður til að dafna í starfi. Einnig er það yfirlýst stefna skólans að nemendum sé skapað gott námsumhverfi sem felst meðal annars í því að nemendur og starfsmenn sýni kurteisi og tillitssemi. Einelti kemur öllum við og árangur byggist á því að allir taki ábyrgð.

Skilgreining á einelti

Um einelti er að ræða þegar einhver er tekinn fyrir og píndur, andlega og/eða líkamlega, aftur og aftur í lengri tíma af einum eða fleiri (Pikas 1975, Olweus 1974 o.fl.). Í umræðunni er talað annars vegar um beint einelti sem er líkamleg píning eða árás, orð og athafnir sem sjást og heyrast. Endurteknar líkamlegar árásir og áníðsla, niðrandi og særandi athugasemdir og aðdróttanir um viðkomandi eða einhvern honum nákominn eru einnig dæmi um slíkt. Óbeint einelti er að skilja útundan, hunsa og neita um aðgang að samfélagi jafningja. Birtingarmynd eineltis meðal nemenda og starfsfólks framhaldsskóla getur meðal annars falið í sér að:

         Upplýsingum er haldið frá fórnarlambinu.

         Fórnarlambið er útilokað frá tilteknum verkefnum.

         Skoðanir fórnarlambsins eru ekki virtar.

         Hart er tekið á mistökum, jafnvel smávægilegum.

         Fórnarlambinu er sýnt óvinsamlegt viðmót.

         Fundinn er ,,blóraböggull”.

Ferli eineltismála

Mikilvægt er að kennarar, nemendur og annað starfsfólk sé vakandi fyrir einelti. Til að koma í veg fyrir einelti ber að leggja áherslu á forvarnir. Forvarnir geta meðal annars falið í sér eftirfarandi:

         Athugun á líðan nemenda og kennara framkvæmd í skólanum.

         Reglubundinni fræðslu komið á.

         Starfshópar (teymi) settir á laggirnar.

         Eineltisáætlun sem felur í sér fræðslu og reglur.

         Auðvelt aðgengi nemenda að starfsmönnum skólans, sérstaklega umsjónarkennurum og námsráðgjöfum.

         Náin samvinna heimila og skóla hjá nemendum yngri en 18 ára.

         Stuðlað er að og hvatt til samstöðu innan bekkja.

Nýnemar í Kvennaskólanum fá fræðslu um eineltismál í áfanganum Nýne1NÝ01 en áherslan er einnig á góð samskipti nemenda innbyrðis og milli nemenda, kennara og annarra starfsmanna.

Nemendur

Þegar vitneskja berst um einelti til skólans frá nemanda/nemendum, forráðamönnum eða starfsfólki, er henni komið til umsjónarkennara.

Könnunarstig:

  • Umsjónarkennari ræðir við geranda/gerendur og einnig við forráðamenn ef nemandinn er yngri en 18 ára. Mikilvægt er að gerendur geti sett sig í spor þolenda og komið með frumkvæði að lausn.
  •  Umsjónarkennari leitar upplýsinga frá kennurum og öðru starfsfólki til að fá skýra mynd af eineltinu.
  • Ef umsjónarkennari telur sig ekki geta leyst málið getur hann vísað því til eineltisteymis skólans en í því sitja skólastjórnandi, náms- og starfsráðgjafi og fulltrúi kennara.


Starfsfólk

Vitneskju um einelti meðal starfsmanna ber að tilkynna til skólastjórnenda og/eða trúnaðarmanns. Áríðandi er að skólastjórnendur taki ásakanir um einelti alvarlega og leiti sér frekari upplýsinga um hvort eineltið eigi við rök að styðjast. Skólastjórnandi leitast við að hafa sanngirni og óhlutdrægni að leiðarljósi.

Könnunarstig:

  • Skólastjórnendur ræða við meintan þolanda og geranda/gerendur hvern í sínu lagi.
  • Skólastjórnendur leita upplýsinga frá kennurum, öðru starfsfólki og fagaaðilum ef þörf krefur. Farsæl lausn málsins byggir mikið á rannsóknarferlinu sjálfu. Þar sem einelti snýst um samskipti er mikilvægt að meintir aðilar að eineltismáli meðal starfsmanna komi sjálfir með hugmyndir að lausn vandans.


Eineltisteymi Kvennaskólans:

Guðný Rún Sigurðardóttir fulltrúi stjórnenda

Hildigunnur Gunnarsdóttir náms- og starfsráðgjafi

Þórður Kristinsson fulltrúi kennara