Mynd af Útskrift stúdenta og skólaslit  28. maí 2016

Útskrift stúdenta og skólaslit 28. maí 2016

Brautskráning og skólaslit Kvennaskólans í Reykjavík í Silfurbergi í Hörpu 28. maí 2016

Myndir

Ræða skólameistara. 
Kvennaskólinn í Reykjavík hefur nú sem endranær starfað af miklum krafti á nýliðnu skólaári og allir starfsmenn hafa lagst á eitt um að árangurinn verði sem bestur – hvort sem um er að ræða gæði þeirrar þjónustu sem við veitum eða rekstur stofnunarinnar.  Í vetur hófu rúmlega 657 nemendur nám á haustönn og um 606 á vorönn eftir að um 40  stúdentar brautskráðust í desember. Í dag brautskrást 175 nemendur frá skólanum.
 
Nú hef ég staðið í þessum sporum 38 sinnum á ferli mínum sem skólameistari en er nú í fyrsta sinn hér Kvennaskólanum eftir aðeins nokkurra mánaða starf. Mér finnst þetta alltaf jafnánægjuleg stund. Það hefur ævinlega mikil áhrif á mig að skynja gleðina og hátíðleikann sem fylla hjörtu bæði nemendanna sem eru í þann mund að brautskrást frá skólanum og aðstandenda þeirra. Nemendur eiga að baki erfitt og krefjandi nám auk þess að hafa tekið út mikinn andlegan og líkamlegan þroska þau ár sem þeir hafa stundað skólann hér í hjarta Reykjavíkur við þessar sérstöku aðstæður. Ég hef ekki getað annað en hrifist af dugnaði þessara ungmenna þann stutta tíma sem ég hef haft til að kynnast þeim. Þau víla ekki fyrir sér að ganga á milli húsa skólans allan veturinn í alls kyns veðrum; gamla skólans við Fríkirkjuveg 9, Miðbæjarskólans við Fríkirkjuveg 1 og svo Uppsala, sem við köllum svo, við Laufásveg. Í öllum veðrum þurfa þau að sækja kennslustundir út og suður og oft var færðin í vetur ill og hálkan hættuleg. En þau kvörtuðu aldrei nokkurn tíma og komu í kennslustundirnir bara ennþá hressari en ella. Þau kalla ekki allt ömmu sína í þessum efnum enda stundum aðeins búin strigaskóm á fótum.  Við búum við þær aðstæður að halda úti starfi hér í tveimur af elstu skólahúsum á landinu, sem sannarlega eru ekki að öllu leyti byggð með kröfur okkar samtíma í huga. Mér finnst þessi krakkar sýna þessum gömlu húsum og þessari sérstöðu skólans  mikið umburðarlyndi og umfram allt virðingu. Reykjavíkurborg má vera hreykin af því að hafa þessar gömlu og virðulegu menntastofnanir, Menntaskólann og Kvennaskólann, hér í hjarta gamla miðbæjarins. Nemendur þeirra glæða hann sannarlega lífi og litum. 
 Ég hef haft mikla ánægju af því að koma í heimsóknir í bekki og ræða við nemendur, ganga um skólann og fylgjast með þeim bæði við leik og störf. Alls staðar mætir manni mikil kurteisi og maður kemst ekki hjá því að verða var við þennan jákvæða og vimót sem einkennir Kvennaskólann. 
Þegar ég kom hingað aftur eftir langt hlé sá ég mér strax til mikillar ánægju að hér ríkir sami góði andinn og áður; og umfram allt að í efsta sæti er umhyggja fyrir nemendum. Ég vona að það sé líka tilfinning ykkar, sem eruð að brautskrást héðan í dag, og aðstandenda ykkar jafnframt.

Félagslíf
Þá fáu mánuði sem ég hef verið hér við störf hef ég  ekki bara orðið vitni að metnaðarfullu námi nemenda heldur ekki síður óhemju kröftugu og fjölbreyttu félagslífi. 
Þetta sést best á  söngkeppninni Rymju, árshátíðinni, glæsilegri sýningu Fúríu á Þreki og tárum í Iðnó, miklum áhuga á og góðum árangri í Gettu betur, jafnréttisviku, góðgerðaviku, glæsilegu skólablaði og svona mætti lengi telja. Slíkra hæfileika, sköpunargleði og menningar hefur skólasamfélagið fengið að njóta í ríkum mæli. Og við kennararnir og annað starfsfólk leitumst við að taka þátt og leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Okkur ber að styrkja og hvetja nemendur til góðra verka.
Þá er þess að geta að fjölmargir nemendur okkar stunda margvíslegar íþróttir og sumir hafa skipað sér í fremstu röð í sínum greinum. Þá hafa nemendur okkar náð frábærum árangri í  í alls konar þrautum og keppnum á landsvísu er tengjast námi þeirra meðal annars í raungreinum og tungumálum. Af þessu erum við líka stolt.
Þá er þess að geta að hópur nemenda hefur tekið þátt verkefnum sem styrkt eru ýmist af Erasmus-áætlun Evrópusambandsins eða Nordplus styrkjakerfi Norðurlandaráðs. Við höfum því átt í samstarfi við marga erlenda skóla og  menntastofnanir. Höfum við af þeim sökum tekið á móti fjölmörgum nemendum, kennurum og skólastjórnendum og sent fólk frá okkur í sama mæli til þeirra. 
Loks skal þess getið að nemendur okkar og kennarar hafa verið á ferð og flugi til stórborga Evrópu í tengslum við nám sitt í þriðja tungumáli, sögu og félagsvísindum og hafa hvervetna vakið athygli fyrir góða framkomu og áhuga á viðfangsefninu hverju sinni.

Fjárhagur framhaldsskólanna/rekstrarumhverfi
Það er fagnaðarefni að framhaldsskólakennarar skuli loksins hafa fengið umtalsverða launahækkun á síðustu mánuðum og leiðréttingu miðað við aðra hópa innan BHM. - En skólarnir eru engu að síður slippir og snauðir og fá ekki það rekstrarfé sem þeir þurfa á að halda til þess að annast þá grunnþjónustu sem lög og námskrá gerra ráð fyrir.
Árangur vinnu síðustu ára er að um 90% nemenda lýkur stúdentsprófi á þremur árum, sem er í raun mun hærra hlutfall en nokkur átti von á. Því má segja að björtustu vonir mennta- og menningarmálaráðaherra hafi ræst og skólinn skilað þeirri hagræðingu sem ætlast var til og gott betur. Námið er mjög þétt og afar vel er haldið á spilunum í kennslunni. Brottfall er nánast ekkert og örugglega með því minnsta sem þekkist á landi hér. Í skólanum eru duglegir, metnaðarfullir og hæfileikaríkir nemendur sem gera kröfur til skólans og námsins auk þess sem þeir gera miklar kröfur til sjálfra sín. Þá er engum blöðum um það að fletta að kennarahópurinn er mjög öflugur, áhugsamur og ósérhlífinn.
Það kemur mér á óvart að ekki hafi tekist að reka Kvennaskólann innan fjárlaga. Gengið hefur verið mjög langt í hagræðingu og ég sé ekki að unnt verði að ganga lengra. 
Ráðuneytið fer fram á enn meiri hagræðingu. Ég spyr:  Eigum við að skera niður kennslu? Námskráin er mjög þétt og mikið vinnuálag er á nemendum ætli þeir að ljúka  námi sínu samkvæmt þriggja ára kerfi um leið og þeir uppfylli inntökukröfur hinna ýmsu háskóladeilda sem hafðar eru til hliðsjónar við skipulag námsins á öllum brautum. Valgreinar eru nær eingöngu á vettvangi námsgreina sem eru innan kjarna hverrar hinna þriggja brauta sem skólinn býður upp á. Val nemenda er því fyrst og fremst fólgið í því að þeir eigi þess kost að styrkja sig í ákveðnum greinum sem boðnar eru á öðrum brautum; eins og t.d. í tungumálum, séu nemendur á raungreinabraut, eða í stærðfræði séu þau á félagsfræða- eða hugvísindabraut. Ekki er seilst út fyrir hin hefðubundnu fög nema að sáralitlu leyti.

Skilvirkni vs. sparnaður
Það hefur komið mér sérstaklega á  óvart og vakið athygli mína að t.d. á haustönn 2015 voru 657 nemendur í skólanum sem skiluðu honum 687 ársnemendum. Þetta er hlutfall sem ég hef aldrei séð fyrr; þessu er yfirleitt öfugt farið. Þessi mikli árangur  hlýtur að réttlæta það að skólinn fái greitt sérstakt framlag fyrir skilvirkni. Þessar tölur sýna að nemendur þurfa að hafa sig alla við til þess að geta lokið 200 eininga stúdentsprófi á þremur árum. Þeir eru með þétta stundaskrá allar annir og fá kennslu í samræmi við það. Þessir ársnemendur verða ekki til með auknum fjölda nemenda í skólanum heldur vegna meiri árangurs, fleiri eininga á hvern nemanda og hverfandi brotthvarfs. 
Við höfum því miður talað fyrir daufum eyrum að því er virðist og verið svarað með nánast algjörri þögn. Vonandi mun þó úr rætast á næstunni – og loksins er eins og okkur hafi tekist að vekja áhuga fjölmiðla og jafnvel þingmanna á stöðu framhaldsskólanna í landinu sem hafa verið vanfjármagnaðir um margra ára skeið.
Stytting náms til stúdentsprófs
Stytting náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú er ekki sjálfsögð og einföld aðgerð. Ég fullyrði samt að hér í Kvennaskólanum hafi tekist að skipuleggja námið þannig að við getum sagt með nokkurri vissu að stúdentarnir okkar eru síst ver búnir undir  frekara nám á háskólastigi en í fjögurra ára kerfinu. Vissulega hefur styttingin leitt óhjákvæmilega til þess að einhver hluti fyrri námsþátta er numinn brott, styttur eða honum breytt. Engu að síður kemur sitthvað í staðinn sem við leyfum okkur að fullyrða að komi sér í sumum tilvikum jafnvel betur en einhverjir þeir þættir sem gætu hafa þurft að víkja.
Við höfum smám saman verið að lengja skólaárið, við erum að fjölga kennsludögum og fækka prófadögum til að nýta tímann betur. Ýmsar breytingar hafa jafnframt orðið á námsmati í fjölmörgum greinum; símat og svokallað leiðsagnarmat hefur orðið algengara síðustu árin á kostnað stórra lokaprófa. Það er mat mitt að fjölbreytt námsmat og kennsluhættir skili betri árangri og betri menntun. 
Við höfum þá trú að með þeirri gríðarlegri og oft skapandi vinnu sem fram hefur farið í skólanum að undaförnu hafi tekist að gera góðan skóla ennþá betri, sem mun tryggja honum áfram forystuhlutverk á meðal íslenskra framhaldsskóla. Við vonum jafnframt að nemendur okkar verði betur undir það búnir að takast á við nútíma samfélag og alþjóðlegt umhverfi, séu víðsýnni, sjálfstæðari og ekki síst áhugasamari um nám sitt en áður.

Tónlistaratriði: Alexandra Björg Ægisdóttir, Hekla Bryndís Jóhannsdóttir og Daney Rós Þrastardóttir leika á fiðlu, selló og píanó.


Afhending skírteina: Góðir gestir. Þá er komið að sjálfri braustkráningunni.
Að þessu sinni verða 175 stúdentar brautskráðir frá skólanum.
Okkur er þá ekkert að vanbúnaði. Oddný Hafberg aðstoðarskólameistari mun lesa upp  nöfnin eftir brautum og starfrófsröð.

Verðlaun afhent.
Að vanda eru veittar viðurkenningar til þeirra nemenda sem skarað hafa fram úr eða náð bestum árangri í einstökum greinum. Það getur stundum verið mjótt á mununum. 
Þær Ingibjörg Axelsdóttir námsstjóri og Oddný Hafberg, aðstoðarskólameistari verða mér til aðstoðar.


Félagslífið:

Viðurkenning fyrir störf í þágu nemendafélagsins. 
Ingigerður Bjarndís Ágústsdóttir formaður Keðjunnar
Alexandra Björg Ægisdóttir gjaldkeri
Sigríður Alma Axelsdóttir  formaður listanefndar
Kristrún Kolbrúnardóttir  formaður Fúríu
Andri Sigurður Haraldsson formaður margmiðlunarráðs

og

Jón Atli Tómasson sem var formaður skemmtinefndar í fyrravetur.


(Aðrir stjórnarmenn, þeir Dagur Jakobsson og Ernir Guðmundsson  útskrifast síðar). Skólasókn:
Sex nýstúdentar voru með 100% raunmætingu í vetur. Þetta eru: 

Freyja Magnúsdóttir  3H  
Jóhann Ingi Harðarson  3NÞ með 100% öll árin
Júlíus Ingi Guðmundsson  3NÞ
Lovísa Baldvinsdóttir  3H
Nanna Huld Kristjánsdóttir 3FA  
Sigríður Þóra Halldórsdóttir 3NÞ  

Verðlaun
Kennarar ykkar tilnefna á hverju ári nemendur sem þeim þykir hafa skarað fram úr í náminu. 

Danska sendiráðið í Reykjavík veitir verðlaun fyrir áhuga á danskri tungu og menningu og þau hlýtur 

                Katrín Kemp Stefánsdóttir  3H


Verðlaun skólans fyrir góðan árangur í ensku hlýtur:

Birgir Steinn Hermannsson 3NF

Albert Einstein sagði eitt sinn að „snilligáfa væri 1% hæfileiki og 99% vinna“.  Birgir Steinn hefur klárlega hæfileikann og rétta hugarfarið til að komast upp í 100% sýnist honum svo. Það sýndi sig sérstaklega í áfanganum „Skapandi skrif á ensku“ þar sem lokaeinkunnin var sjaldséð tía. En stundum þyrfti einkunnaskalinn að geta farið upp í 11 þegar tían nægir ekki til að gefa rétta mynd af vinnu nemanda eins og Birgis Steins.

Franska sendiráðið á Íslandi veitir verðlaun fyrir mjög góðan árangur í frönsku á öllum námsbrautum skólans. Verðlaunin verða afhent við sérstaka athöfn í sendiherrabústaðnum þann 14. júní. Þeir nemendur sem hljóta verðlaunin í ár eru:

Lovísa Baldvinsdóttir 3H stúdent af hugvísindabraut,

Sindri Máni Ívarsson 3FA  stúdent af félagsvísindabraut

og

Andri Pétur Magnússon 3NF  stúdent af náttúruvísindabraut

Þau sýndu öll góða ástundun og mikinn áhuga á frönskunámi sínu frá byrjun og er árangur þeirra í öllum áföngum til vitnis um það.Þýska sendiráðið veitir tvenn verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í þýsku á stúdentsprófi:
Júlíus Ingi Guðmundsson 3. NÞ hlýtur verðlaun Þýska sendiráðsins fyrir mjög góðan árangur í þýsku og
 
Freyja Magnúsdóttir 3. H hlýtur verðlaun Þýska sendiráðsins fyrir framúrskarandi árangur í þýsku

 
Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands verðlaunar þá nemendur sem skarað hafa fram úr í tungumálanámi í framhaldsskóla. Í ár er það:
Freyja Magnúsdóttir 3H

sem hlýtur þessi verðlaun.  Freyja hefur tekið 17 tungumálaáfanga og náð góðum árangri í þeim öllum.
Að lokum fær Freyja verðlaun Kvennaskólans fyrir frábæran námsárangur í málvísindum á lokaári.


Á hverju ári eru veitt verðlaun úr Móðurmálssjóði fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku. Verðlaunin hlýtur að þessu sinni:

Hólmfríður María Þórarinsdóttir 3NF

fyrir mjög góðan árangur í öllum kjarnaáföngum greinarinnar. Viðurkenningu fyrir lifandi áhuga, samviskusemi og góðan árangur í umhverfisfræði hlýtur:

Móey Pála Rúnarsdóttir 3FÞ

Gámaþjónustan hf. gefur þessi verðlaun.Verðlaun skólans fyrir góðan árangur og áhuga í líffræði hlýtur

Hekla Mjöll Finnbogadóttir 3NÞVerðlaun skólans fyrir áhuga, elju og góðan árangur í líffræði hlýtur

                Anna Lísa Þorkelsdóttir 3NAEfnafræðifélag Íslands veitir verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í efnafræði. Þau hlýtur að þessu sinni: 

Anna Lísa Þorkelsdóttir 3NAViðurkenningu skólans fyrir framúrskarandi árangur í eðlisfræði hljóta:

Anna Kristín Hálfdánardóttir 3NÞ

og

                Dagur Þórðarson 3NB


Verðlaun skólans fyrir frábæran árangur í efna- og eðlisfræði hlýtur

Árni Veigar Thorarensen 3NB
Háskólinn í Reykjavík veitir sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi. Um er að ræða vegleg bókaverðlaun sem veitt eru þeim nemanda sem hlýtur hæstu meðaleinkunn í raungreinum á náttúruvísindabraut í hverjum framhaldsskóla. Auk þess fá verðlaunahafar sem kjósa að hefja nám við Háskólann í Reykjavík nýnemastyrk og niðurfelld skólagjöld fyrstu önnina í námi. 
Verðlaunin hlýtur að þessu sinni: 

Árni Veigar Thorarensen 3NB
Íslenska stærðfræðafélagið veitir að þessu sinni þrenn verðlaun fyrir frábæran námsárangur í stærðfræði og þau hljóta:

Árni Veigar Thorarensen 3NB,


Ragnheiður Gná Gústafsdóttir 3NA 


Sigríður Þóra Halldórsdóttir 3NÞ¬¬¬¬¬
Verðlaunasjóður fröken Ragnheiðar Jónsdóttur fyrrum skólastjóra Kvennaskólans veitir tvenn söguverðlaun þetta árið. Þau hljóta:

Karen Lilja Loftsdóttir 3H fyrir frábæran árangur í valáföngum í sögu á vormisseri 2016

og

Valgerður Hirst Baldursdóttir 3FF fyrir frábæran árangur í sögu öll árin bæði í kjarna og vali.

Valgerður Hirst fær einnig sérstaka viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf innan skólans sem hefur fært hann í átt til aukins jafnréttis og víðsýni. Valgerður var prímus mótor við stofnun hinsegin félags skólans sem heitir Stoltið en fær þessi verðlaun þó ekki bara fyrir félagið heldur einnig fyrir að vera óþreytandi í vinnu að bættum aðstæðum fyrir hinsegin nemendur. Valgerður hefur líka alltaf verið boðin og búin til að svara spurningum kennara og nemenda varðandi hinsegin málefni.


Verðlaun skólans fyrir mjög góðan námsárangur og áhuga í sálfræði og uppeldisfræði öll þrjú árin á félagsvísindabraut hlýtur 

Björg Sóley Kolbeinsdóttir 3FF
Verðlaun skólans fyrir frábæran árangur í félagsgreinum öll námsárin hlýtur
                Elísa Eir Hákonardóttir 3FF

Á öllum brautum í nýja kerfinu er nú kjarnaáfangi sem nefnist lokaverkefni. Markmiðið er að nemendur takist á við metnaðarfullt lokaverkefni sem krefst sjálfstæðis og vandaðra vinnubragða og er góður undirbúningur undir frekara nám.

Verðlaunasjóður dr. Guðrúnar P. Helgadótturm fyrrum skólastjóra, veitir verðlaun fyrir besta lokaverkefnið „Stúdentspennann 2016".  Hann hlýtur að þessu sinni:

                Ingigerður Bjarndís Ágústsdóttir 3NA

Ingigerður fær stúdentspennann fyrir ritgerðina: ,,Þeir vilja, þær veita.“ Hvers vegna er sjálfsfróun kvenna meira feimnismál en sjálfsfróun karla? 
Ingigerður sýnir frumleika og sjálfstæði í hugsun og hefur góðan skilning á viðfangsefninu. Fræðileg vinnubrögð eru til fyrirmyndar auk þess sem Ingigerður hefur einstakt vald á blæbrigðum íslenskunnar sem endurspeglast í stíl höfundar. Til gamans má geta þess að Ingigerður gerði sér lítið fyrir og þýddi ritgerðina yfir á ensku í þýðingaráfanga sem hún tók á önninni.

Í ár voru tvær ritgerðir sem þóttu sérstaklega skara fram úr. Skólinn vill því einnig veita hinni ritgerðinni viðurkenningu en hana skrifaði
Freyja Magnúsdóttir 3H
Freyja fær viðurkenningu fyrir sérstaklega vel unnið lokaverkefni. Ritgerð Freyju ber titilinn Stefnubreytingar í 18. aldar tónlist og fjallar um áhrif barokktónlistar á upphaf klassískrar tónlistar. Freyju tekst vel að vinna úr efninu og öll fræðileg vinnubrögð eru til fyrirmyndar, uppbygging og textagerð sérlega vönduð.

Verðlaun úr Minningarsjóði frú Þóru Melsteð, stofnanda Kvennaskólans í Reykjavík, fyrir hæstu meðaleinkunn og bestan heildarárangur á stúdentsprófi  vorið 2016, fyrstu ágætiseinkunn  9,46  hlýtur 

Hólmfríður María Þórarinsdóttir 3NF


Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, skólameistari, og Erla Elín Hansdóttir, dönskukennari kvaddar.
Við  höfum búið svo vel síðan um áramót að við Kvennaskólann  hafa verið starfandi tveir skólameistarar. Ingibjörg Guðmundsdóttir hefur verið í starfi hér fram á þennan dag en mun nú hverfa af þessum vettvangi sem hún hefur helgað krafta sína síðan árið 1973, fyrst sem kennari, þá sem aðstoðarskólameistari og loks skólameistari síðan 1998 eða í 18 ár. Vil ég biðja hana að koma hingað upp og taka við lítilli gjöf frá skólanum fyrir hennar vel unnu störf fyrr og síðar.

Erla Elín Hansdóttir, dönskukennari, er einnig að kveðja okkur í dag en hún hefur starfað við skólann síðan árið 1977. Vil ég einnig biðja hana um að koma hingað og taka við lítill gjöf frá skólanum fyrir góð störf fyrr og síð.


Ávarp nýstúdents: Ingigerður Bjarndís Ágústsdóttir. 
(Henni til fulltingis verður Sigríður Alma Axelsdóttir.)

Ávarp afmælisárgangs. 
Bjarni Ólafur Ólafsson fyrir hönd 30 ára stúdenta.

Skólaslit - Hjalti Jón Sveinsson
Á stund sem þessari langar mig að brýna fyrir ykkur nokkur mikilvæg gildi – eins og það að bera virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Að sýna samferðarfólki ykkar umburðarlyndi á lífsins leið og vera æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við. Hlustið á sjónarmið annarra. Umgangist alla þá er á vegi ykkar verða af sömu alúð – háa sem lága.
Hafið hugfast að ekkert það starf sem ykkur verður falið er svo ómerkilegt að það eigi ekki skilið að vera leyst af hendi af fyllstu alúð og samviskusemi. Verið trú yfir því sem ykkur er treyst fyrir – í stóru sem smáu.
Berið virðingu fyrir og verið trú uppruna ykkar og heimabyggð – leggið alúð við móðurmálið ykkar, hvert sem það er, og hæfileikana sem ykkur eru í blóð bornir.

Loks vil ég þakka samstarfsfólki mínu fyrir vel unnin störf á önninni og undirbúning og framkvæmd þessarar hátíðar okkar í dag.

 

Myndir frá viðburðinum eru hér