Róbert Helgi sigraði Þýskuþraut

Kristófer Snorri, Róbert Helgi, Karitas Líf, Iðunn og Eva Rakel við verðlaunaafhen…
Kristófer Snorri, Róbert Helgi, Karitas Líf, Iðunn og Eva Rakel við verðlaunaafhendinguna.
Á myndina vantar Davíð Goða sem gat því miður ekki mætt.

 

Á hverju ári efnir Félag þýskukennara til Þýskuþrautar á meðal þýskunema í framhaldsskólum á öllu landinu og var Þýskuþrautin nú haldin í 35. sinn. Nemendur Kvennaskólans stóðu sig með glæsibrag að þessu sinni eins og oft áður.

Af 15 efstu sætunum sem fengu viðurkenningu á stigi 1 átti Kvennaskólinn þrjá nemendur en það eru þau Róbert Helgi Pálsson sem náði þeim frábæra árangri að lenda í 1. sæti, Eva Rakel Birkisdóttir varð í 4. sæti og Karitas Líf Ríkarðsdóttir í 8. sæti. Róbert Helgi hlýtur að launum tveggja vikna námsferð í sumarbúðir í Þýskalandi í lok júlí. Á stigi 2, sem er fyrir lengra komna, átti Kvennaskólinn tvo fulltrúa í fimm efstu sætunum, þá Kristófer Snorra Daníelsson sem var í 3. sæti og Davíð Goða Jóhannsson í 5. sæti.

Að auki voru ein útdráttarverðlaun í boði þar sem allir nemendur sem tóku þátt í þrautinni áttu möguleika á ferð í fyrrnefndar sumarbúðir. Þau verðlaun hlaut Iðunn Gunnsteinsdóttir Kvennaskólanemi. Viðurkenningar fyrir Þýskuþrautina voru veittar á Uppskeruhátíð Félags þýskukennara laugardaginn 16. mars og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.

Við í Kvennó erum afar stolt af þessum flottu fulltrúum skólans og óskum þeim hjartanlega til hamingju með árangurinn.