Einingafjöldi: 5
Þrep: 3
Forkröfur: SÁLF2IS05 eða sambærilegur áfangi í félagsvísindum á 2. þrepi
Viðfangsefni áfangans er það sérsvið sálfræðinnar sem kallast réttarsálfræði (forensic psychology). Réttarsálfræði er hagnýting sálfræðilegrar þekkingar í réttarfarslegum tilgangi, hvort sem hann varðar rannsóknir mála, yfirheyrslur, réttarhöld eða dóma. Áfanginn á að gefa yfirlit þessara þátta og er sérstaklega unnið með raunveruleg mál. Áhersla er lögð á að þjálfa nemendur í vinnslu gagna, að draga fram aðalatriði, greina dæmin og koma þeim skilningi á framfæri. Einnig er mikilvægt að nemandi geti ályktað um önnur sambærileg dæmi út frá því sem unnið er með í tímum, t.d. varðandi stöðu mála á Íslandi ef unnið er með erlend mál og öfugt. Nemendur vinna bæði með mál einstaklinga, para og sérstaklega hópa sem sýna sterka frávikshegðun sbr. „cult”.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- undirstöðum réttarsálfræðinnar, bæði í afbrigðasálfræði, lögfræði og í afbrotafræði
- sögu réttarsálfræðinnar
- helstu kenningum fræðigreinarinnar
- sérkennum réttarsálfræðinnar og þeim sérstöku aðferðum sem hún beitir
- þeim grunnatriðum sem réttarsálfræðin fær frá öðrum greinum
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- vinna með helstu grunnhugtök réttarsálfræðinnar
- þekkja helstu mál réttarsálfræðinnar
- afla upplýsinga, greina þær og geta sett fram á skiljanlegu máli
- meta nýjar upplýsingar og fréttir á sviði réttarsálfræðinnar
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- vinna úr einstökum dæmum og leggja sjálfstætt mat á þau
- sýna sjálfstæði, t.d. frumkvæði við að velja sér verkefni og vinna að þeim á ábyrgan máta
- álykta um gæði og galla þeirra heimilda sem unnið er með
- leggja siðferðilegt mat á þau alvarlegu mál sem nemendur vinna með
Nánari upplýsingar á námskrá.is