Stefna skólans í forvörnum

Kvennskólinn í Reykjavík leggur áherslu á að nemendur skólans tileinki sér heilbrigðan lífsstíl og jákvætt viðhorf. Tilgangur forvarna í skólanum gengur út á að vekja nemendur til umhugsunar um hvar ábyrgð þeirra liggur á eigin heilsu og vellíðan, að allir búi yfir einhverjum hæfileikum og að þeir viti hvernig þeir eiga að nálgast markmiðin sín í framtíðinni. Markmið skólans er að: 

  • vekja nemendur til umhugsunar um styrkleika sína og veikleika og styrkja með því sjálfsmynd þeirra og sjálfstraust, félagsþroska, félagstengsl og umhyggju
  • auka virðingu í samskiptum á milli nemenda sjálfra og nemenda og starfsfólks
  • seinka eftir megni eða koma í veg fyrir að nemendur hefji neyslu á áfengi, tóbaki eða öðrum vímuefnum 

Forvarnarfulltrúi skólans er Ester Bergsteinsdóttir, sálfræðikennari. Netfang esterb[hjá]kvenno.is

Hlutverk forvarnarfulltrúa

  • samhæfa forvarnarfræðslu fyrir nemendur
  • vera talsmaður forvarnastefnunnar og fylgja henni eftir í samráði við stjórnendur
  • stjórna og leiða saman forvarnateymi skólans og leita þar ráðgjafar og taka á málum líðandi stundar
  • sinna gæslu á böllum á vegum Keðjunnar (nemendafélagsins) og þeim ferðum sem farnar eru undir eftirliti skólans
  • samráð við félagsmálafulltrúa og nemendafélag skólans, þar sem unnið er eftir forvarnastefnu skólans
  • sinna fræðslu um forvarnir fyrir forráðamenn
  • fá foreldra til liðs við gæslu á böllum á vegum nemendafélagsins
  • vera tengiliður við foreldrafélagið og veita ráðgjöf um fræðslu
  • tryggja starfsemi edrúpotts og gera hann eftirsóknaverðan
  • að sækja sér fræðslu og uppfæra þekkingu sína á heilsu og líðan ungmenna á Íslandi

Forvarnarteymi skólans

Forvarnarteymi er starfrækt við skólann og stýrir forvarnarfulltrúi teyminu.
Forvarnarteymið samanstendur af skólameistara, forvarnar- og félagsmálafulltrúa og fulltrúa stoðþjónustu.

Markmið og aðgerðir sem styðja við forvarnarstefnu skólans

  • Að nemendur viti hvert og til hverra þeir geti leitað stuðnings og hjálpar innan skólans og utan ef þeir lenda í áföllum og erfiðleikum
  • Að hvetja nemendur til náms og tómstundastarfa og gera þá meðvitaða um hvaða þýðingu það hefur fyrir framtíð þeirra
  • Að veita nemendum stuðning og aðhald
  • Að vinna gegn notkun á áfengi, tóbaki og öðrum vímuefnum og að stuðla að því að nemendur verði meðvitaðir um að þeir hafi val og taki ábyrgð á lífi sínu
  • Að fræða nemendur um afleiðingar og hættu af neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna t.d. í formi fyrirlestra og umræða
  • Að standa fyrir fræðslufyrirlestrum fyrir nemendur og starfsfólk
  • Að stuðla að samvinnu við þá aðila sem vinna að forvörnum í sveitarfélaginu
  • Að efla félagsstarf innan skólans í samstarfi við nemendafélag skólans
  • Að sporna gegn einelti innan veggja skólans með að skipa í eineltisteymi sem fer yfir eineltisáætlun skólans og upplýsir annað starfsfólk um áætlunina Eineltisáætlun Kvennaskólans má sjá hér
  • Fræða starfsmenn og nemendur um réttindi þeirra í málum tengdum kynferðislegri áreitni eða hvers kyns öðru ofbeldi

 

Hlutverk foreldra 

Foreldrar eru ein mikilvægasta fyrirmynd barna sinna. Mikilvægt er að foreldrar tali við börn sín um ungmenni um tóbak, áfengi og önnur vímuefni og taki skýra afstöðu gegn því að þau prófi eða noti slík efni. Foreldrar geta stuðst við eftirfarandi ráð til að sporna gegn því að börn og ungmenni noti tóbak, áfengi eða önnur vímuefni: 

  • Byggja upp traust og náið samband 
  • Setja mörk og halda fast við þau 
  • Fylgjast með hvað þau eru að gera og hvar þau eru 
  • Kaupa hvorki áfengi né tóbak fyrir börn undir lögaldri 
  • Leyfa ekki eftirlitslaus partí 
  • Tala opinskátt og heiðarlega um áhættuna af notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna 
  • Stofna samráðsvettvang foreldra (facebook-hóp eða annan sambærilegan vettvang) fyrir foreldra innan bekkja þar sem þeir geta rætt saman um ýmis mál er upp koma m.a. bekkjarpartý o.fl. 

Skólareglur er varða þennan hluta skólastarfsins

Annars vegar reglur í almennum skólareglum 

  • Kvennaskólinn er tóbakslaus skóli. Allar tegundir tóbaksnotkunar eru bannaðar í húsakynnum skólans, lóð, samkomum og í ferðalögum á vegum skólans. Sama gildir um notkun rafrettna.
  • Í skólanum, á lóð skólans, á samkomum og/eða í ferðalögum á vegum skólans skal enginn hafa áfengi eða önnur hugbreytandi efni um hönd né vera undir áhrifum þeirra.

 

Hins vegar sérstakar vinnureglur: 

  • Forvarnarfulltrúi og félagsmálafulltrúi eru tengiliðir við félagslíf á vegum nemendafélagsins (Keðjan) og eru þeir viðstaddir helstu fjöldasamkomur.
  • Ef hafa þarf afskipti af nemanda á dansleik eða annarri samkomu á vegum skólans verður nemandinn boðaður í viðtal til skólameistara svo fljótt sem verða má. Sé nemandinn yngri en 18 ára er foreldri/forráðamaður þegar í stað gert viðvart og skal viðkomandi sækja nemandann. 
  • Ef starfsmaður skólans hefur vitneskju eða rökstuddan grun um meðhöndlun ólöglegra fíkniefna eða sjálfsskaðandi hegðun nemanda ber honum að tilkynna það stjórnendum, forvarnarfulltrúa eða námsráðgjafa til nánari athugunar. 

 

Fræðsla um forvarnir 

Fræðsla um forvarnir og heilbrigða lífshætti hefst í nýnemafræðslu á fyrstu námsönn, þar er komið inn á ýmis atriði sem m.a. tengjast geð- og kynheilbrigði. Enn fremur eru kenndir valáfangar með forvarnargildi og hafa m.a. það markið að minnka áhættuhegðun á ýmsum sviðum dæmi um slíka áfanga eru íþróttir, kynheilbrigði, sálfræði daglegs lífs, kynjafræði og fötlun og samfélag. Að auki er fræðsla samþætt inn í ýmsar námsgreinar en öllum kennurum er ætlað að stuðla að framgangi forvarnarstefnunnar.

 

Þátttaka í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli 

Kvennaskólinn er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem byggir á þeirri "stefnu að nálgast heilsueflingu og forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu, nemenda og starfsfólks. Nálgunin veitir aukin tækifæri til að efla tengslin við nærsamfélagið og auka þannig stuðning og tækifæri nemenda og starfsfólks til að tileinka sér jákvæðan og heilbrigðan lífstíl". 

Helstu áherslur í verkefninu eru hreyfing, næring, geðrækt, tóbak, rafrettur, áfengi og vímuefni, jafnrétti og kynheilbrigði og að lokum öryggi. 

Ester Bergsteinsdóttir forvarnarfulltrúi (esterb(hjá)kvenno.is) er tengiliður skólans við verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli. 

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér

Þátttaka í Uppbyggingarstefnunni

Haustið 2018 byrjaði skólinn innleiðingu á Uppbyggingarstefnunni þar sem markmiðið var að innleiða heildstæða stefnu til að vinna gegn lélegri sjálfsmynd og ýmis konar sjálfsskaðandi hegðun. Uppbyggingarstefnan hjálpar okkur við að byggja upp sjálfsmynd nemenda, auka sjálfsaga og trú á eigin getu. Sýnt hefur verið fram á betri námsárangur og líðan nemenda þar sem unnið er eftir þessari stefnu. Fyrsta árið vann starfsmannahópurinn að því að kynna sér verkefnið en haustið 2019 var byrjað að vinna með nemendur á 1. bekk. Verkefnið er enn á tilraunastigi og tíminn verður að leiða í ljós hvort verkefnið henti nemendum á framhaldsskólastigi.