Tilgangur lýðheilsu- og forvarnarstefnu Kvennaskólans í Reykjavík er að stuðla að heilbrigðum lífsháttum, jákvæðri lífssýn nemenda og vinna gegn hvers kyns áhættuhegðun. Lögð er áhersla á að styrkja félagslíf sem eflir félagsþroska nemenda og minnkar líkur á neyslu vímuefna.
Markmið stefnunnar eru að:
- efla vitund nemenda um gildi heilbrigðra lífshátta
- auka meðvitund nemenda um hvar ábyrgð þeirra liggur á eigin heilsu og vellíðan
- vekja nemendur til umhugsunar um styrkleika sína og veikleika og styrkja með því sjálfsmynd þeirra, sjálfstraust, félagsþroska og félagstengsl
- stuðla að góðum skólabrag
- seinka eftir megni eða koma í veg fyrir að nemendur hefji neyslu á áfengi, tóbaki eða öðrum vímuefnum
Forvarnarfulltrúi og tengiliður skólans við verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli er Ester Bergsteinsdóttir, sálfræðikennari. Netfang esterb[hjá]kvenno.is.
Aðgerðir sem styðja við markmið stefnunnar:
- Þátttaka Kvennaskólans í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli. Samræmdir matslistar eru notaðir til að meta stöðu skólans og finna hvar hægt er að gera betur. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér.
- Fræðsla um heilbrigða lífshætti, forvarnir, geð- og kynheilbrigði.
- Stuðningur og aðhald við nemendur í gegnum stoðþjónustu skólans og umsjónarkennara. Ferli fylgt ef áhyggjur vakna af stöðu og/eða líðan nemanda.
- Fræðsla til nemenda um hvert og til hverra þeir geti leitað stuðnings og aðstoðar innan skólans og utan.
- Fræðsla til nemenda um einkenni og skaðsemi fíknar og áhrif hugbreytandi efna.
- Áhersla á góð samskipti og forvarnir gegn einelti innan skólans.
- Fræðsla um hvernig fyrirbyggja megi líkamlegt, andlegt, félagslegt og kynferðislegt ofbeldi (EKKO mál).
- Tilkynningahnappur er á heimasíðu skólans sem nemendur geta notað til að tilkynna um EKKO-mál. Í skólanum er EKKO-teymi sem annast þau mál sem koma upp (Stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti og ofbeldi (EKKO) Kvennaskólans má sjá hér).
- Samstarf við aðra skóla, Landlæknisembættið og fleiri aðila sem vinna að forvörnum.
Hlutverk forvarnarfulltrúa:
- samhæfa forvarnarfræðslu fyrir nemendur
- vera talsmaður forvarnastefnunnar og fylgja henni eftir í samráði við stjórnendur
- stjórna og leiða saman forvarnateymi skólans og leita þar ráðgjafar og taka á málum líðandi stundar
- sinna gæslu á böllum á vegum Keðjunnar (nemendafélagsins) og þeim ferðum sem farnar eru undir eftirliti skólans
- samráð við félagsmálafulltrúa og nemendafélag skólans, þar sem unnið er eftir forvarnastefnu skólans
- sinna fræðslu um forvarnir fyrir forráðamenn
- fá foreldra til liðs við gæslu á böllum á vegum nemendafélagsins
- vera tengiliður við foreldrafélagið og veita ráðgjöf um fræðslu
- tryggja starfsemi edrúpotts og gera hann eftirsóknaverðan
- að sækja sér fræðslu og uppfæra þekkingu sína á heilsu og líðan ungmenna á Íslandi
Forvarnarteymi skólans
Forvarnarteymi er starfrækt við skólann og stýrir forvarnarfulltrúi teyminu.
Forvarnarteymið samanstendur af skólameistara, aðstoðarskólameistara, forvarnar- og félagsmálafulltrúa og fulltrúa stoðþjónustu.
Skólareglur er varða lýðheilsu- og forvarnarstefnu
- Gagnkvæm virðing, kurteisi, heiðarleiki og ábyrgð skulu ríkja í samskiptum nemenda og starfsfólks.
- Nemendur eiga rétt á að þeim sé sýnd kurteisi, tillitsemi og virðing og að þeir séu ekki beittir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi af samnemendum eða starfsfólki skóla.
- Kvennaskólinn er tóbakslaus skóli. Allar tegundir tóbaksnotkunar eru bannaðar í húsakynnum skólans, lóð, samkomum og í ferðalögum á vegum skólans. Sama gildir um notkun rafrettna.
- Í skólanum, á lóð skólans, á samkomum og/eða í ferðalögum á vegum skólans skal enginn hafa áfengi eða önnur hugbreytandi efni um hönd né vera undir áhrifum þeirra.
- Fjallað er um viðurlög við brotum á framangreindu í skólareglum skólans.
(Síðast uppfært í mars 2025)