Samkvæmt lögum um framhaldsskóla (nr. 92/2008) er markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í framhaldsskólum að:
- veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks framhaldsskóla, viðtökuskóla, atvinnulífs, foreldra og nemenda,
- starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár framhaldsskóla,
- auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
- tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.
Mat á skólastarfi í framhaldsskóla er tvíþætt: Annars vegar er um að ræða innra mat sem skólar framkvæma sjálfir. Hins vegar er um að ræða ytra mat sem utanaðkomandi aðili vinnur á vegum ráðuneytis mennta- og barnamála eða annarra aðila.
Í reglugerð um mat og eftirlit í framhaldsskólum (700/2010) er innra mat skilgreint:
- Hver framhaldsskóli skal með kerfisbundnum hætti meta árangur og gæði skólastarfsins. Virkt innra mat skal samofið annarri starfsemi skóla og skal skapa forsendur fyrir markvissu mati á árangri og leiðum að markmiðum skóla. Innra mat skal vera umbótamiðað og ná til allra helstu þátta skólastarfsins. Það skal stuðla að aukinni vitund um mikilvægi gæða í öllu starfi.
- Tryggja skal virka þátttöku starfsmanna, foreldra, nemenda og skólaráðs í innra mati, eftir því sem við á. Innra mat skal byggja á fjölbreyttum gögnum sem taka mið af viðfangsefnum hverju sinni.
- Framhaldsskólar skulu birta opinberlega og á aðgengilegan hátt, á heimasíðu sinni eða með öðrum hætti, upplýsingar um framkvæmd innra mats, helstu niðurstöður og umbótaáætlun. Einnig skal gera grein fyrir tengslum matsins við skólanámskrá og stefnu skólans.
- Nánari viðmið um innra mat eru sett í aðalnámskrá framhaldsskóla.
Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati á framhaldsskólum fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytisins.
Í ytra mati felst að utanaðkomandi aðili leggur mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi lögum, reglugerðum og aðalnámskrám. Er það meðal annars gert með því að skoða fyrirliggjandi gögn um starfsemi skóla, heimsóknum úttektaraðila og viðtölum við nemendur, starfsfólk skóla og foreldra.
Á hverju ári ákveður ráðuneyti fjölda og hvaða framhaldsskólar eru metnir, samanber lög nr. 92/2008 um framhaldsskóla, gildandi reglugerðir um mat og eftirlit og þriggja ára áætlanir mennta- og menningarmálaráðuneytisins um úttektir á þessu skólastigi. Meta skal framhaldsskóla á fimm ára fresti skv. 42. gr. fyrrnefndra laga.