Foreldrasamstarf

Kvennaskólinn leitast við að hafa gott samstarf við foreldra nemenda, sérstaklega á þetta við um ólögráða nemendur. Haldinn er kynningarfundur með foreldrum nýnema snemma á haustönn þar sem starf og aðstaða í skólanum er kynnt, nemendaþjónusta, félagslíf nemenda og umsjónarkennarar funda með foreldrum umsjónarnemenda sinna.

Foreldrar ólögráða nemenda hafa aðgang að Innu upplýsinga- og kennslukerfi skólans sem heldur utan um alla þætti náms hjá nemendum, s.s. mætingu, einkunnir og námsferil. Inna er einnig kennslukerfi skólans og þar er m.a. hægt að nálgast námsáætlanir áfanga. Mikilvægt er að forráðamenn gæti þess að netföng þeirra og símanúmer séu rétt skráð í Innu. Nota þarf Íslykil eða rafræn skilríki til að skrá sig inn á Innu. 

Umsjónarkennarar eru tengiliðir skólans og foreldra og hafa bæði þeir og aðrir kennarar vikulega viðtalstíma sem foreldrar eru hvattir til að notfæra sér. Þegar nemandi hefur náð sjálfræðisaldri er einungis heimilt að veita honum sjálfum, eða þeim sem nemandinn hefur gefið til þess skriflegt umboð, upplýsingar um nemandann úr gagnasafni skólans.