Verklagsreglur við inntöku nýnema

Almennt skilyrði til að þess að hefja nám til stúdentsprófs á félagsvísindabraut og náttúruvísindabraut í Kvennaskólanum í Reykjavík er að hafa hlotið að lágmarki einkunnina B í ensku, íslensku og stærðfræði við lok grunnskóla þar sem byrjunaráfangar þeirra greina eru á 2. þrepi. Það getur þó komið til þess að umsækjandi með C+ eða C í einni þessara þriggja greina fái skólavist ef einkunnir í hinum tveimur greinunum eru háar.

Ef umsóknir nýnema um skólavist eru fleiri en hægt er að verða við er reiknuð meðaleinkunn greinanna íslensku, ensku og stærðfræði og umsóknum raðað eftir þeirri meðaleinkunn. Einkunnum er þá gefið eftirfarandi talnavægi:

A  = 4,0
B+ = 3,75
B  = 3,0
C+ = 2,75
C = 2,0

Komi til þess að margir nemendur hafi sömu meðaleinkunn í þessum þremur greinum verður til viðbótar horft til einkunna í náttúrufræði, samfélagsfræði og Norðurlandamáli og jafnvel fleiri greina ef þarf. Ef einhverjir umsækjendur raðast samt sem áður jafnir getur komið til þess að þeim verði raðað á tilviljanakenndan hátt með hlutkesti eða öðrum sambærilegum aðferðum.

Nemendur geta óskað eftir því að taka íslensku sem annað tungumál í stað íslensku á félags- og náttúruvísindabraut og verður þá ekki horft til einkunnar í íslensku á við úrvinnslu umsóknar. Í staðinn verður litið til einkunna í náttúrufræði og samfélagsfræði.

Gögn nemenda sem hafa ekki vitnisburð frá íslenskum grunnskóla verða metin sérstaklega.

Umsóknir eldri nemenda: Miðstöð menntunar og skólaþjónustu auglýsir hvenær innritun eldri nema fer fram. Hver umsókn er skoðuð sérstaklega og áskilur skólinn sér rétt til að velja úr umsóknum miðað við rými á námsbrautum og bekkjum og hvernig námsferlar umsækjenda passa inn í laus pláss í skólanum.