Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Samkvæmt reglugerð nr. 654/2009 eiga framhaldsskólar að setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Markmiðið er að nemendur verði færir um að skilja og nota íslenskt mál, stunda nám í framhaldsskóla og taka virkan þátt í íslensku samfélagi. Í aðalnámskrá framhaldsskóla segir:

„Framhaldsskólar skulu koma til móts við þarfir nemenda af erlendum uppruna með íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt samfélag og menningu, liðsinni við heimanám, jafningjastuðningi og öðrum þeim ráðum sem að gagni mega koma. Hver skóli skal setja sér móttökuáætlun þar sem fram koma helstu atriði um skólastarfið á máli sem nemendur og forráðamenn ólögráða nemenda geta skilið. Í móttökuáætlun felst að gerð sé einstaklingsnámskrá sem tekur mið af bakgrunni og tungumálafærni viðkomandi, að þróa námsaðferðir til að mæta viðkomandi nemendum, að skipuleggja samráð nemenda og starfsmanna skólans og upplýsa með skýrum hætti hvaða stuðning skólinn veitir til dæmis við heimanám og túlkun. Sérstaklega skal huga að þeim nemendum sem íslenskir eru en hafa dvalið langdvölum erlendis.“

Í Kvennaskólanum í Reykjavík er bekkjakerfi. Gerðar eru sömu námskröfur til nemenda með annað móðurmál en íslensku og þeirra sem hafa dvalið langdvölum erlendis. Þeir stunda íslenskunám með sínum bekk eftir því sem kostur er. Skólinn skoðar hverju sinni þörf á sérstöku námsframboði í íslensku og/eða úrræði hvað varðar áfanga þar sem mikið lesefni er á íslensku, aðstoð við lokaverkefni og/eða próftöku á prófatíma.

Skimunaferli
Í byrjun skólars hefst skimunarferli til að finna út hve margir nemendur sem eru að innritast í 1. bekk falla undir þennan málalokk. Upplýsingar sendar til náms- og starfsráðgjafa og umsjónarkennara. Umsjónarkennarar beðnir um að fylgjast vel með bæði náms- og félagslega. Nemendum tilkynnt að allir geti leitað sér aðstoðar hjá náms- og starfsráðgjöfum skólans.

Viðtal
Nemendur eru boðaðir í viðtal til náms- og starfsráðgjafa. Markmiðið er að afla upplýsinga um stöðu nemenda, bakgrunn hans og aðstæður og meta hvaða stuðning nemandinn þarf.

Einingar fyrir móðurmál annað en íslensku
Námstjóri fer yfir hvort nemandi geti fengið móðurmál sitt metið til eininga í stað erlends tungumáls í stað dönsku eða sem valeiningar. Námstjóri aðstoðar einnig við að finna fjarnám og/eða stöðupróf í móðurmáli.

Miðannarmat
Miðannarmat á haustönn notað til að meta stöðu nemenda. Umsjónarkennari kallar viðkomandi nemendur í viðtal og beinir þeim til náms- og starfsráðgjafa ef þurfa þykir.

Eftirfylgni
Á hverri námsönn er kallað eftir upplýsingum frá kennurum um stöðu nemenda í náminu, fylgst með mætinu og námsárangri. Nemendur eru í reglulegu sambandi við umsjónarkennara sinn.

 

Móttökuáætlun kynnt á kennarafundi á vorönn 2019