Einingafjöldi: 3
Þrep: 1
Forkröfur: Engar
Í þessum byrjunaráfanga fyrir hug- og félagsvísindadeild er dregin upp sú heimsmynd sem náttúruvísindi byggja á þ.e. frá kenningum um tilurð efnisheimsins til innri gerðar atómsins. Fjallað er um aðferðafræði sem sameiginleg er náttúru- og raunvísindum. Sérstaða og grunnhugtök efnafræðinnar eru kynnt: frumefni, efnasambönd og efnablöndur, eiginleikar efna og ástandsform, uppbygging atóma, öreindir, sameindir, efnatákn, efnajöfnur og nafnakerfi ólífrænna efna, uppbygging og notkun lotukerfisins sem hjálpartækis, efnasambandið vatn og vatnslausnir, vatnsforði jarðar og mengun, lofthjúpur jarðar, lagskipting, efnasamsetning og mengun, rafsegulbylgjur og notkun þeirra, efnatengi, jónir og jónatengi, samgild tengi, kjarnahvörf, kjarnaklofnun, kjarnasamruni og nýting kjarnorka. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist þekkingu á umhverfi sínu nær og fjær sem hluta af efnisheiminum þar sem þekking á efnafræði getur nýst. Því er reynt að tengja efnafræðiþekkinguna daglegu lífi og áhugasviði ungs fólks. Einnig eru verkefni tengd umhverfi nemenda með það fyrir augum að auka áhuga þeirra og kynna þeim mikilvægi þekkingar á efnafræði í daglegu lífi. Verklegar æfingar miða að því að virkja nemendur í námi sínu og er ætlað að vera áhugahvetjandi.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- sögu efnafræðinnar og rannsóknaraðferðum í náttúru- og raunvísindum
- uppbyggingu atóms, öreindum, frumefnum, mun á efnasamböndum og efnablöndum
- uppbyggingu lotukerfisins, rafeindaskipan frumefna og áhrif á eiginleika frumefna
- efnasamsetningu andrúmslofts, eiginleikum vatns og vatnslausna
- mismunandi efnatengjum og kjarnahvörfum
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- lesa efnajöfnur og stilla þær
- aðgreina efni í frumefni, efnasambönd og efnablöndur
- gefa ólífrænum efnasamböndum heiti
- nota lotukerfi til að segja til um eiginleika frumefna
- framkvæma verklegar æfingar og vinna úr þeim
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- sýna sjálfstæði í vinnubrögðum og bera ábyrgð á eigin námsframvindu
- vinna í hóp til þess að auka skilning á fyrirbærum náttúru- og raunvísinda
- leggja mat á upplýsingar sem tengjast efnanotkun í samfélaginu á gagnrýninn hátt
- tengja undirstöðuþekkingu í efnafræði við daglegt líf og umhverfi og sjá notagildi hennar
Nánari upplýsingar á námskrá.is