FÉLV1SJ06 - Sjónarhorn félagsvísinda

Einingafjöldi: 6
Þrep: 1
Forkröfur: Engar
Í þessum byrjunaráfanga er fjallað um grunneiningar samfélagsins og þær skoðaðar frá sjónarhorni félagsvísinda. Fjallað er um samfélagið í ljósi þeirra áhrifa sem það hefur á einstaklinginn og líf hans. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist þekkingu á samfélögum nær og fjær svo að þeir verði færir um að taka virkan þátt í samfélagslegum umræðum og mynda sér skoðanir á meðvitaðan og gagnrýninn hátt. Nemendur kynna sér félagslega þætti sem stýra hugsun og athöfnum einstaklingsins og keppt er að því að nemendur öðlist skilning á skipulagi eigin samfélags og annarra. Meginmarkmið áfangans er að nemendur átti sig á því hvernig samfélagið hefur áhrif á þá og hvernig þeir geta haft áhrif á samfélagið.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • algengustu hugtökum félagsvísinda
  • helstu áhrifavöldum í félagsmótun s.s. fjölskyldu, skóla, félaga og fjölmiðla
  • mikilvægustu félagslegu festum ólíkra samfélaga og tilgangi þeirra
  • helstu hugtökum stjórnmálafræðinnar s.s. valdi, lýðræði og þrískiptingu ríkisvaldsins
  • íslenskum vinnumarkaði s.s. atvinnuþátttöku, launajafnrétti og hagsmunasamtökum
  • samstarfi þjóða á alþjóðavettvangi s.s. innan Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og á sviði alþjóðlegra viðskipta
  • réttindum og skyldum sínum gagnvart samfélaginu
  • Kynbundnu ofbeldi og hvernig það birtist í nánum samböndum

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • beita algengustu hugtökum félagsvísinda á skýran og skilmerkilegan hátt
  • lesa og skilja áhrif félagslegra festa í samfélaginu
  • greina stöðu sína innan samfélagsins og þau áhrif sem einstaklingar geta haft í samfélaginu
  • gera grein fyrir einkennum og þróun ólíkra samfélaga
  • setja fram niðurstöður sínar bæði munnlega og skriflega

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • gera grein fyrir samspili þekkingar, umburðarlyndis og fordóma
  • tjá sig skipulega og gagnrýnið um samfélagsleg álitamál
  • geta lagt mat á heimildir og upplýsingar í félagsvísindum
  • geta beitt öguðum vinnubrögðum, tekið ábyrgð á eigin námi og unnið í samvinnu við aðra
  • Vita hvenær og hvert má leita eftir aðstoð vegna kynbundins ofbeldi
Nánari upplýsingar á námskrá.is