Einingafjöldi: 2
Þrep: 2
Forkröfur: Engar
Í áfanganum fást nemendur við umhverfismál í skólanum. Þeir sem velja þennan áfanga skipa umhverfisráð skólans hverju sinni. Þetta er vinnuáfangi, nemendur vinna sjálfstætt en kennari hefur umsjón og eftirlit með hópnum.. Einn nemandi velst til forystu hópsins og er jafnframt formaður umhverfisráðs. Formaður boðar fundi og heldur utan um verkefni annarra í ráðinu. Ráðið hittist á fundi einu sinni í viku til að ræða hugmyndir og aðgerðir, skal fundarritari hverju sinni skrá hvað fram fer á hverjum fundi. Hver nemandi fær verkefni til að sinna auk þess að taka þátt í sameiginlegum verkefnum allra. Eitt þessara verkefna er að finna efni til að kynna fyrir öðrum þátttakendum á öðrum hverjum fundi, hver og einn heldur eina kynningu (tíðni getur breyst eftir fjölda þátttakenda). Efnisval skal vera í samráði við formann ráðsins og kennara. Nemendur skila skýrslu mánaðarlega þar sem vinna og verkefni eru tíunduð. Sýnilegur árangur þarf auk þess að vera af vinnunni. Að baki tveimur einingum liggja 48 stundir í vinnu. Nemendur þurfa að vinna að verkefnunum utan stundatöflu. Hlutverk kennarans er að halda utan um vinnu nemenda, vera þeim til halds og trausts og meta hversu mikla vinnu þeir inna af hendi til að geta metið áfangann til eininga. Kennari heldur einnig utan um öll gögn sem þurfa að vera til taks þannig að hægt sé að endurmeta stöðu skólans í tengslum við grænfánann ár hvert, í samvinnu við formann umhverfisráðs. Grunnhlutverk hópsins eru eftirfarandi: kynna umhverfisstefnu skólans fyrir nemendum og starfsfólki í upphafi skólaárs, sjá um dagskrá umhverfisdags einu sinni á önn, fylgja eftir sorpflokkunarmálum í skólanum, taka þátt í endurmati á stöðu grænfánans ár hvert og sinna ýmsu öðru er varðar umhverfismál. Þess er einnig vænst að nemendur sýni frumkvæði í þessu starfi.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- umhverfismálum sem koma við sögu í skólastarfi
- hvað hugtakið sjálfbærni í skólastarfi þýðir
- aðferðum til að virkja samfélag til dáða varðandi umhverfismál
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- vinna að úrbótum á sviði umhverfismála í skólastarfi
- stuðla að sjálfbærni í skólastarfi
- standa að vakningu í samfélaginu varðandi umhverfismál
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- vera virkur þátttakandi í samfélagi sem hefur sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi
- taka þátt í umræðum um umhverfismál á grunni reynslu og þekkingar
- eiga þátt í ákvarðanatöku um stefnu eigin samfélags á sviði umhverfismála.
Nánari upplýsingar á námskrá.is