NÁMS3NS02 - Stúdentspróf og hvað svo?
Námsgrein
: Náms- og starfsval
Lýsing
Áfanginn er 2 einingar og er kenndur á 3. ári.
Áfanginn hét áður NÁMS1NS02.
Í áfanganum fá nemendur tækifæri til að staldra við og skoða hvert þau stefna að loknu stúdentsprófi. Notuð eru ýmis verkfæri til að efla sjálfsþekkingu nemenda og til að leita upplýsinga um nám og störf sem vekja áhuga þeirra. Náms- og starfsráðgjafi leggur fyrir áhugasviðs- og styrkleikapróf og nemendur heimsækja skóla sem bjóða nám að loknu stúdentsprófi og fara í starfskynningu. Þá fá nemendur fræðslu um mikilvæga færniþætti á vinnumarkaði og ýmislegt sem tengist atvinnuleit og réttindum og skyldum á vinnumarkaði. Meginmarkmið áfangans er að auka áhuga, þekkingu og skilning nemenda á þeim tækifærum sem bíða að loknu stúdentsprófi, svo þeir verði færir um að meta og taka sjálfir ákvörðun með upplýstum og ábyrgum hætti.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- kenningu John Hollands um áhugasvið
- VIA styrkleikum og leiðum til að efla styrkleika og vinna með veikar hliðar
- eftirsóknarverðum færniþáttum á vinnumarkaði
- gerð náms- og starfsferilsskráa
- framboði á framhaldsnámi hérlendis og erlendis
- leiðum til að afl upplýsinga um nám og störf
- helstu einkennum vinnumarkaðarins, s.s. ólíkum starfsgreinum, launakjörum og réttindum og skyldum á vinnumarkaði
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- finna upplýsingar um nám og störf og átta sig á kröfum sem gerðar eru til einstaklinga í mismunandi námi og störfum
- bera saman námsleiðir og tengja við eigin áhugasvið
- skoða ólík störf, starfsumhverfi og færniþætti á vinnumarkaði
- efla sjálfskilning með því að skoða innri þætti svo sem áhugasvið og styrkleika
- afla upplýsinga um störf, greina þær og setja í fræðilegt samhengi
- gera náms- og starfsferilsskrá og kynningarbréf til að nota á vinnumarkaði
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- þróa náms- og starfsferil sinn með tilliti til áhugasviðs
- nýta styrkleika sína sem best
- uppfæra reglulega eigin náms- og starfsferilsskrá
- taka virkan þátt á vinnumarkaði með gott og réttlátt vinnuumhverfi að leiðarljósi
- beita þekkingu sinni um styrkleika og færniþætti til að sjá samspil þeirra á vinnumarkaði