FRUM3NR05 - Frumkvöðlafræði og nýsköpun
Undanfari : FÉLV1SJ06
Námsgrein
: Frumkvöðlafræði
Lýsing
Einingafjöldi: 5
Þrep: 3
Áfanginn er valáfangi á bóknámsbrautum þar sem kynnt eru ýmis hugtök og viðfangsefni í viðskiptagreinum s.s. nýsköpun, vöruþróun, stefnumótun, markaðssetning, bókhald og ársreikningar. Áfanginn er hugsaður sem kynning á viðskiptagreinum í háskólanámi sem hjálpi nemendum að átta sig á hvort þeir vilja fara í frekara nám á því sviði. Nemendur sem velja áfangann taka þátt í keppninni Ungir frumkvöðlar þar sem lagt verður mat á raunhæfni og framkvæmd. Skýrsla sem unnin er í áfanganum verður metin af JA Iceland. Nemendur vinna sjálfstæð verkefni í hópum. Þeir vinna hugmyndavinnu við þróun vöru sem svarar þörf fyrir umbætur á tilteknu sviði sem þeir velja sjálfir. Lögð er áhersla á að hugmyndirnar séu raunhæfar. Nemendur nýta hugmyndir sínar til að setja fram viðskiptahugmynd og áætlun, vinna að stefnumótun og fjármögnun. Þeir vinna í hópum og stofna og reka eigið fyrirtæki. Hópurinn fjármagnar með útgáfu hlutabréfa, markaðssetja, framleiða og selja vöruna/þjónustuna á sölusýningu í Smáralind. Einnig nýtist verkefnið til þess að halda bókhald og gera markaðsáætlun til að koma vöru á framfæri. Í lok áfangans eru fyrirtækin lögð niður og gerð upp. Gert er ráð fyrir að farið verði í nokkrar heimsóknir og námskynningar í stofnanir og fyrirtæki. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð og virka þátttöku nemenda. Kennsluaðferðir miða að því að virkja nemendur, efla sköpunarkraft og auka sjálfstæði og ábyrgð nemenda á eigin námi.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- frumkvöðlum, nýsköpun, vöruþróun og framleiðslu
- stjórnun og stefnumótun fyritækja
- markaðssetningu vöru og viðfangsefni markaðsfræðinnar
- áætlanagerð, fjárhagsáætlunum og fjármögnun fyrirtækja
- útgáfu hlutabréfa, bókhaldi, stjórnarfundum, fundargerðum
- framleiðsluferli vöru
- verkaskiptingu og reglum í starfsmannaráðningum
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- vinna að vöruþróun í hópvinnu
- búa til kynningarefni fyrir vöru og þjónustu
- gera áætlanir og átta sig á hvort raunhæft sé að framleiða tiltekna vöru
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- vinna að skapandi verkefnum og reka lítið fyrirtæki
- koma hugmyndum sínum á framfæri á árangursríkan hátt
- koma auga á viðskiptatækifæri
- meta markaðsaðstæður og nýta sölutækni við markaðssetningu
- afla sér frekari þekkingar og upplýsinga sem nýtast við skapandi störf.