150 ára afmæli fagnað

 

Kærar þakkir til ykkar allra sem fögnuðu með okkur 150 ára afmæli Kvennaskólans í gær. Það var virkilega ánægjulegt hversu margir fyrrverandi nemendur, starfsfólk, foreldrar, ömmur og afar komu í heimsókn á opið hús.

Kolfinna Jóhannesdóttir skólameistari stýrði hátíðardagskrá í porti Miðbæjarskólans sem hæfði tilefninu vel enda margar sögufrægar samkomur verið haldnar í þessu skemmtilega porti sem nú tilheyrir Kvennaskólanum. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra flutti ávarp, Hera Sjöfn Atladóttir sem er nemandi á 2. ári í skólanum söng lagið Heyr mína bæn, Diljá Ámundadóttir Zoega flutti hjartnæmt ávarp fyrir hönd skólanefndar og Logi Hjörvarsson, forseti nemendafélagsins Keðjunnar, rappaði til heiðurs afmælisbarninu og stýrði afmælissöng sem heyrðist um alla miðborgina.

Að lokinni hátíðardagskrá gengu gestir um byggingar skólans, rifjuðu upp minningar, kíktu inn í kennslustundir og skoðuðu sýningu á merkum munum úr sögu skólans sem opnuð var í tilefni dagsins.

Það gladdi sérstaklega að hitta heilu vinahópana og fjölskyldurnar sem mættu saman til að heimsækja gamla skólann sinn. Þær eru orðnar margar kynslóðirnar sem gengið hafa um ganga skólans og þær voru því ansi fjölbreyttar sögurnar sem heyrðust í gær. Þær bera vott um ríka og langa sögu skóla í sífelldri mótun en líka skóla sem hefur tekist að halda í gamlar hefðir sem sameina kynslóðirnar. Til dæmis voru rifjaðar upp minningar frá epladögum og peysufatadögum sem hafa verið haldnir hátíðlegir í yfir 100 ár.

Skólanum bárust gjafir og hlýjar kveðjur í tilefni dagsins sem við þökkum fyrir og þykir vænt um. Það er ómetanlegt fyrir Kvennaskólann að eiga velunnara sem styðja við skólastarfið. Til dæmis stóðu Hollvinasamtök skólans fyrir söfnun meðal útskriftarárganga og afhentu okkur tvo glæsilega þrívíddarprentara sem fengu nöfnin Þóra Melsteð og Ingibjörg H. Bjarnason eftir þeim konum sem ruddu braut skólans.

Við hvetjum gesti og gangandi til að kíkja á sýninguna sem verður opin á virkum dögum frá 8:00-14:00 til og með 8. október. Sýningin geymir merka muni sem tengjast sögu skólans. Til dæmis eru til sýnis náms- og kennslugögn frá fyrstu starfsárum skólans og persónulegir munir úr búi Ingibjargar H. Bjarnason fyrrum skólastýru Kvennaskólans sem jafnframt var fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi.

Fleiri ljósmyndir eru væntanlegar á næstu dögum og gaman væri ef lesendur sem eiga myndir úr afmælinu væru til í að senda okkur þær á netfangið kvennaskolinn@kvenno.is