- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Miðvikudaginn 24. apríl síðastliðinn fóru fjórir bekkir á 2. ári á Njáluslóðir. Keyrt var austur fyrir fjall í blíðskaparveðri. Fyrsti áfangastaðurinn voru Keldur en þar fengu nemendur að skoða leynidyr, kíkja á rústir og bæta sjón sína með heilögu vatni úr Maríulind. Í öðrum áfanga var Njálusetrið heimsótt. Léku nemendur þar listir sínar í ballskák og axarkasti sem oft endaði með tómum axarsköftum. Sumir gestir hættu sér út á refilstigu Njálusýningarinnar þar sem sjálft höfuðdjásnið, Njálurefillinn, var víðs fjarri. Eftir það fengu allir sér hamborgara. Að lokum var keyrt inn í Fljótshlíð þar sem hlíðin fagra var barin augum og nemendur ýmist léku bardaga eða lágu í grasinu og slökuðu á. Síðasta stopp ferðarinnar fyrir heimkomu var svo hinn fagri Gluggafoss þar sem nokkrir nemendur stungu sér til sunds.