Ályktun kennarafélags Kvennaskólans í Reykjavík

Við höfnum öllum hugmyndum um að leggja Kvennaskólann í Reykjavík niður í núverandi mynd.
Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnaður 1874 og verður því 150 ára á næsta ári. Saga hans er samofin íslenskri kvenna- og skólasögu og hefur verið mikilvægur hluti réttindabaráttu kvenna frá stofnun. Sérstaða hans er að mörgu leyti mikil, ekki bara hvað varðar sögu hans, heldur líka sem menntastofnun og framhaldsskóli og sjálfsmynd og skólabragur Kvennaskólans byggir að miklu leyti á staðsetningu hans og húsakosti. Brotthvarf úr skólanum hefur verið mjög lágt og hann hefur skilað frá sér öflugum stúdentum, vel undirbúnum fyrir nám á háskólastigi. Mikil ánægja hefur verið með starfsemi skólans og stuðning við nemendur eins og skýrt hefur komið fram í könnunum og staðfestist með miklum fjölda umsókna um skólavist ár hvert.

Ef sameina á tvo skóla þarf að endurskoða frá grunni námsskipulag, námsframboð, námsbrautir, áfangalýsingar og fleira. Því er ljóst að í raun er verið að leggja niður báða skóla og stofna nýjan sem verður einhvers konar blanda gömlu skólanna tveggja. Allar fullyrðingar um annað eru haldlausar. Með því að leggja niður Kvennaskólann í Reykjavík væri því bæði verið að slá striki yfir merkan kafla í sögu þjóðarinnar og ógna því góða starfi sem fram fer innan veggja hans.

Við mótmælum þeirri aðför að farsæld barna sem felst í þessum áformum.
Í Kvennaskólanum í Reykjavík hefur á undanförnum árum verið byggt upp mjög öflugt stuðningsnet fyrir nemendur skólans sem er mjög í anda farsældarlaganna sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2021. Þetta net er jafnframt stór ástæða þeirra miklu vinsælda og aðsóknar sem skólinn hefur notið. Í stað þess að nota Kvennaskólann sem fyrirmynd fyrir aðra skóla þegar kemur að stuðningi við nemendur er gríðarleg hætta á að rof verði á þessari þjónustu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir nemendur skólans.

Áform um stórtæka sameiningu framhaldsskóla eru í hróplegri andstöðu við menntastefnu mennta- og barnamálaráðuneytisins til 2030.
Í stefnu ráðuneytisins kemur m.a. fram að „markmið menntastefnu er að veita framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem allir geta lært og allir skipta máli.“ Jafnframt segir: „Skólar og aðrar menntastofnanir taki mið af þörfum, getu og hæfni sérhvers nemanda og vinni út frá styrkleikum og áhuga hvers og eins. Samfélaginu ber skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja öllum tækifæri til þess að þroskast og dafna á eigin forsendum innan menntakerfisins. Mikilvægt er að tryggja að allir finni sig í menntakerfinu og að stuðlað sé að jafnrétti innan þess“. Ómögulegt er að sjá hvernig það að leggja niður framhaldsskóla, stækka þá og auka einsleitni þeirra samræmist þessari stefnu.

Við hörmum mjög óheppilega tímasetningu tilkynninga um þessi áform.
Eftir aðeins eina viku hefjast lokapróf á vorönn skólans. Ljóst er að nemendur hafa miklar áhyggjur af framtíð skólans og þeirra sjálfra og er einkar óheppilegt að auka á þennan hátt álag og streitu hjá þeim þegar þau ættu að vera að einbeita sér að náminu. Þá má ætla að þessi tímasetning geti haft mikil áhrif á grunnskólanemendur sem nú sækja um framhaldsskólavist á komandi skólaári, því óvissa um framtíð Kvennaskólans mun óhjákvæmilega fæla þá frá að sækja um í skólanum þó þeir gjarnan vildu stunda þar nám.

Við krefjumst rökstuðnings fyrir þeirri beiðni ráðherra að hefja fýsileikakönnun á sameiningu Kvennaskólans við aðra skóla.
Kvennaskólinn er mjög vel rekinn skóli, með mikla aðsókn og býr við ágætan húsakost. Ekki hefur verið talin brýn þörf að stækka við húsakostinn eða breyta að ráði þeim sem fyrir er. Skólinn hefur skilað frá sér öflugum námsmönnum sem hafa staðið sig vel í áframhaldandi námi á háskólastigi. Engar raddir hafa þannig verið uppi um að þörf sé á samruna við annan menntaskóla eða að bráður húsnæðisvandi blasi við. Því hafa engin rök komið fram sem varpa ljósi á hvers vegna nafn Kvennaskólans hefur verið dregið upp úr hatti ráðherra til að leysa húsnæðisvanda annarra skóla.

Húsnæðið í Stakkahlíð er ekki fýsilegur kostur fyrir framhaldsskóla.
Húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð er illa farið vegna leka og myglu og ljóst að þar þarf að fara í umfangsmiklar viðgerðir til að hægt verði að nýta það undir skólahald. Jafnframt er stór hluti húsnæðisins miðaður við hefðbundna háskólakennslu, með stórum fyrirlestrasölum sem eiga ekkert erindi í nútímalega framhaldsskóla. Því er ljóst að gríðarlegt fjármagn þarf til að gera við og breyta því húsnæði svo það henti fyrir framhaldsskólakennslu og ekki ljóst hver hagræðingin yrði af því.

Við hvetjum mennta- og barnamálaráðherra til að gæta aðhalds í fjármálum ríkisins og hætta því við að eyða bæði peningum og tíma í fýsileikakönnun á þeim kosti að leggja niður Kvennaskólann í Reykjavík.

 

Sent:
Mennta- og barnamálaráðherra
Stjórnendum Kvennaskólans í Reykjavík
Skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík
Fjölmiðlum