Berlínarferð nemenda


Aðfaranótt miðvikudagsins 28. september hélt 28 manna hópur þýskunemenda í áfanganum ÞÝSK2BE05 ásamt kennara áfangans Björgu Helgu Sigurðardóttur og eiginmanni hennar, Kára Örlygssyni, til Berlínar í náms- og menningarferð. Nemendur höfðu fyrir ferðina lært um sögu og menningu borgarinnar og unnið kynningar um hverfi hennar og þekktustu staði. Hópurinn gisti rétt við Alexanderplatz, í hjarta gömlu Austur-Berlínar. Farið var í bæði göngu- og rútuferð með íslenskum leiðsögumanni sem býr í Berlín auk þess sem kennari fór með nemendur í styttri ferðir. Í þessum ferðum voru skoðaðir margir merkir staðir. Má þar nefna Brandenborgarhliðið, Ólympíuleikvanginn, dómkirkjuna, Holocaust- minnismerkið, East Side Gallery og Treptower-garðinn. Auk þess var hin sögufræga bygging Reichstag (þinghúsið) heimsótt og Gedenkstätte Berliner Mauer sem er minningarstaður um Berlínarmúrinn en þar fengu nemendur leiðsögn um svæðið. Einnig heimsóttu nemendur einn merkan stað að eigin vali og fóru margir í sjónvarpsturninn og fengu þannig frábært útsýni yfir borgina, aðrir fóru í dýragarðinn, upp í Sigursúluna og/eða á ýmis söfn. Margir notuðu tækifærið og versluðu á Ku‘damm, frægustu verlsunargötunni í vesturhluta Berlínar. Komið var heim síðdegis sunnudaginn 2. október eftir mjög vel heppnaða ferð. Framkoma nemenda í ferðinni var til fyrirmyndar og voru þeir skólanum til sóma.