Besti árangur á stúdentsprófi frá upphafi

Rut Rebekka Hjartardóttir, dúx Kvennaskólans í Reykjavík skólaárið 2023
Rut Rebekka Hjartardóttir, dúx Kvennaskólans í Reykjavík skólaárið 2023

 

Mikil gleði ríkti í Háskólabíó í dag, laugardaginn 27. maí, þegar 200 nýstúdentar voru brautskráðir við hátíðlega athöfn. Það var svo sannarlega tilefni til að fagna enda margir að upplifa stóra persónulega sigra og stúdentsprófið loks í höfn. Kolfinna Jóhannesdóttir skólameistari stýrði athöfninni en auk hennar flutti Ásdís Arnalds, aðstoðarskólameistari skemmtilegt ávarp fyrir hönd starfsfólks. Nýstúdentar spiluðu stóran þátt í glæsilegri dagskrá. Félagar í kór Kvennaskólans sungu undir stjórn Lilju Daggar Gunnarsdóttur og þar söng Arna Hlín Aradóttir nýstúdent einsöng í lagi Jónasar Jónassonar Vor í Vaglaskógi við texta Kristjáns frá Djúpalæk. Síðar í athöfninni voru svo tvö tónlistaratriði frá nýstúdentum sem jafnframt hafa lokið burtfararprófi frá MÍT (Menntaskóla í tónlist). Annars vegar lék Matthildur Traustadóttir verkið Libertango eftir Astor Piazzolla á fiðlu en með henni spilaði Matthías Kormáksson á harmonikku. Hins vegar lék Helga Sigríður E. Kolbeins verkið Nocturne ( Notturno) op. 54 no. 4 eftir Edvard Grieg á píanó. Ávarp nýstúdents flutti Ólöf Thelma Arnþórsdóttir, fráfarandi forseti Keðjunnar sem er nemendafélag Kvennaskólans.

Þetta er í fyrsta sinn sem Kolfinna Jóhannesdóttir brautskráir stúdenta að vori til frá Kvennaskólanum en hún tók við starfi skólameistari í ágúst síðastliðnum. Í ávarpi sínu fjallaði Kolfinna um mikilvægi menntunar og hversu samofin hún er ýmis konar réttindabaráttu. Þar nefndi hún heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að í menntun felist réttindi sem leysi úr læðingi önnur mannréttindi. Hún minnti á að saga Kvennaskólans er einmitt saga um samspil réttindabaráttu og menntunar. Skólinn var stofnaður árið 1874 af hjónunum Þóru Melsteð og Páli Melsteð og var sá fyrsti á Íslandi sem bauð konum upp á formlega menntun. Stúdentarnir í dag eru því að útskrifast frá einum elsta starfandi skóla á landinu sem mun á næsta ári fagna 150 ára afmæli. Í dag er skólinn fyrir öll kyn og mikil áhersla lögð á faglegan metnað og umhyggju fyrir þeim sem þar starfa, bæði nemendum og starfsfólki.

Dúx skólans var Rut Rebekka Hjartardóttir með einkunnina 9,97. Þetta er besti árangur á stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík frá upphafi. Hún hlaut að launum verðlaun úr Minningarsjóði frú Þóru Melsteð. Semidúx skólans var Karen Þrastardóttir með einkunnina 9,84. 

Ingibjörg Ólafsdóttir hlaut Stúdentspennann úr verðlaunasjóði dr. Guðrúnar P. Helgadóttur. Þau eru veitt fyrir besta lokaverkefni skólaársins en Ingibjörg þótti sýna framúrskarandi vinnubrögð í umfjöllun sinni um birtingarmyndir hinsegin fólks í gegnum kvikmyndasöguna.

Menntaverðlaun Háskóla Íslands eru veitt nemanda sem hefur skarað fram úr á skólagöngu sinni. Nemandinn þarf að hafa sýnt framúrskarandi árangur á stúdentsprófi auk þess að hafa náð eftirtektarverðum árangri á sviði lista eða íþrótta eða átt mikilvægt framlag til skólafélaga eða skólans. Menntaverðlaun Háskóla Íslands hlaut að þessu sinni Bjarney Ósk Harðardóttir. Bjarney Ósk hefur staðið sig afbragðsvel í námi alla skólagönguna en auk þess að hafa stundað námið af metnaði hefur Bjarney Ósk verið formaður Stoltsins, hinsegin félags Kvennaskólans í Reykjavík, og fulltrúi þess í jafnréttisteymi skólans. Hún hefur verið óþreytandi í að leiða þá vinnu og frætt bæði nemendur og starfsfólk um hinsegin málefni.

Verðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi hlaut Hildur Hrönn Sigmarsdóttir. Þessi verðlaun eru veitt nemanda sem sannað hefur getu sína í raungreinum bæði með vali á krefjandi 3ja þreps námskeiðum og með framúrskarandi árangri. Um er að ræða vegleg bókaverðlaun, auk þess sem verðlaunahafar sem kjósa að hefja nám við Háskólann í Reykjavík, fá niðurfelld skólagjöld fyrstu önnina í námi.  

Aðrar viðurkenningar fyrir afburðagóðan námsárangur fengu: Freyja Rós Conger, Lilja Rós Gunnarsdóttir, Una Traustadóttir, Karen Sól Halldórsdóttir, Bóas Sigurjónsson, Aldís Lóa Benediktsdóttir, Matthildur Traustadóttir, Eva María Jóhannsdóttir, Ingibjörg Ólafsdóttir og Herdís Pálsdóttir.

Viðurkenningu fyrir þátttöku í stjórn nemendafélagsins Keðjunnar fengu Ólöf Thelma Arnþórsdóttir, Ingibjörg Ólafsdóttir, Gígja Ómarsdóttir, Alex Þór Júlíusson, Salka Sóley Ólafsdóttir, Nína Margrét Valtýsdóttir, Ægir Bergþórsson og Kendra Líf Walker. 

Við óskum öllum nýstúdentunum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með áfangann.