Blóðugt verkefni í líffræðitíma!

 

Á göngu um skólann vakti það athygli þegar blóðugar hendur sáust í einni kennslustofunni. Þetta reyndist þó saklausara en við fyrstu sýn því þarna voru á ferðinni útskriftarnemendur á náttúruvísindabraut sem voru að skoða og kryfja brjóstholslíffæri í lífeðlisfræðiáfanga. Þar fengu nemendur það verkefni að skoða alvöru hjarta og lungu úr dýrunum. Kristín Marín Siggeirsdóttir er kennari í áfanganum og gerir svona verklega æfingu á hverju ári í áfanganum. Þetta vekur að sjálfsögðu misjöfn viðbrögð hjá unga fólkinu okkar. Mörg þeirra eru mjög spennt fyrir verkefninu og ákveða t.d. hið snarasta að gerast skurðlæknar í framtíðinni meðan aðrir komast að því að það sé hugsanlega ekki rétta starfsvalið fyrir þau. En öll eru þau þó sammála um að verklega æfingin dýpki skilning á því efni sem lært er um og að myndefni úr kennslubókum hafi nú öðlast raunverulegri merkingu fyrir þeim.