Brautskráning

Níu nemendur brautskráðust frá Kvennaskólanum í Reykjavík laugardaginn 19. desember. Fjórir nemendur útskrifuðust af félagsvísindabraut og fimm af náttúruvísindabraut. Að vanda voru veittar viðurkenningar fyrir námsárangur og starf nemenda að félagsmálum. Að þessu sinni fékk Kolfinna Iðunn Atladóttir viðurkenningu fyrir störf í þágu nemendafélagsins Keðjunnar en hún var formaður málfundafélagsins Loka skólaárið 2019-2020. Nikodem Júlíus Frach fékk einnig viðurkenningu skólans fyrir samviskusemi og dugnað en hann lauk stúdentsprófi með sóma á aðeins fimm önnum auk þess hann stundaði krefjandi fiðlunám þann tíma sem hann hefur verið í skólanum. 
Við athöfnina flutti Kolfinna ávarp fyrir hönd nýstúdenta og Nikodem Júlíus lék á fiðlu pólónesu í A-dúr eftir H. Weniawski. Meðleikari hans var Bjarni Frímann Bjarnason. 

Vegna faraldursins var fámennt við útskriftarathöfnina í Uppsölum en athöfninni var streymt. Hér má sjá dagskrá athafnarinnar og ræðu skólameistara

Skólinn óskar nýstúdentum innilega til hamingju með áfangann.