Bubbi Morthens mætti í áfanga um sig


Bubbi Morthens heimsótti nemendur valáfangans BUBBI mánudag fyrir viku. Kóngurinn var kominn til að spjalla um allt og ekkert. Forvitnir nemendur gengu á lagið og spurðu eins og vindurinn enda búnir að vinna leynt og ljóst að viðburðinum frá upphafi annar í von og óvon um að kennaranum tækist að narra þjóðskáldið í heimsókn.

Það má með sanni segja að flæði hafi einna helst einkennt kennslustundina sem þótti heldur stutt í annan endann í þetta skiptið. Forvitni nemenda rak samtalið áfram og Bubbi svaraði spurningum þeirra af innblásinni einlægni eins og honum er einum lagið.

Nemendur gengu út úr kennslustund með glás af heilræðum og öðrum uppbyggilegum ráðum um það hvernig standa skal keikur í lífinu og listinni. Þó var einn tónn sleginn oftar en aðrir. Bubbi margendurtók mikilvægi lesturs og sagði hann forsendu velsældar í lífi sérhvers manns. Það sé fyrst og síðast með lestri bókmennta sem við víkkum út landslagið innra með okkur og stækkum þannig sem manneskjur.

Eins og þessi ráð voru ekki nóg, þá rann upp úr Bubba listi af uppáhaldsbókum, rithöfundum og söngvaskáldum sem hægt er að nýta jólafríið og allar aðrar lausar stundir til að komast í gegnum:

      • Bækur og rithöfundar í uppáhaldi hjá Bubba:
        • Meistarinn og Margaríta e. Mikhaíl Búlgakov
        • Moby Dick e. Herman Melville
        • Ungfrú Ísland e. Auði Övu Ólafsdóttur
        • Einræður Starkaðar e. Einar Ben
        • Vigdís Grímsdóttir
        • Hallgrímur Helgason
        • Jón Kalman Stefánsson
        • Og svo ótal fleiri
      • Söngvaskáld sem Bubbi mælir með að ungt fólk síhlusti á og raðfíli:
        • Nick Cave
        • Patti Smith
        • Leonard Cohen
        • Svo einhver séu nefnd
---------
ÍSLE3BI03 - Áfangalýsing
Bubbi er kóngurinn. Við höfum öll skoðun á honum hvort sem við fylgjum honum í blindni, elskum að hata hann eða leitum allra leiða við að leiða hann hjá okkur. Hann er hreinlega alltumlykjandi stærð í íslensku menningarlífi og hefur verið það svo áratugum skiptir. Hann er viðurkenndur en umdeildur í íslensku þjóðfélagi, stöðugur en frumlegur í listsköpun sinni. Við ætlum í þessum áfanga að líta yfir farinn veg Bubba. Við skoðum í sameiningu margbreytilegt höfundarverk hans útfrá ólíkum hliðum og með fjölbreyttum aðferðum. Allt í þeim tilgangi að gera okkur grein fyrir því hvernig Bubbi fór að því að yrkja sig inn í íslenska þjóðarsál fyrir rúmum fjörutíu árum, en ekki síður hvernig honum hefur tekist að halda sér og okkur á tánum allar götur síðan! Kennari í áfanganum er Svavar Steinarr Guðmundsson íslenskukennari.