Dýrmætt samstarf

 

Kvennaskólinn er í samstarfi við menntavísindasvið Háskóla Íslands um vettvangsnám kennaranema. Á hverju ári fáum við til okkar hóp kennaranema sem tekur þátt í skólastarfinu allt skólaárið. Þau sækja vikulega fundi og kynnast fjölbreyttum þáttum í starfsemi skólans. Þau fylgjast með kennslustundum, mæta á kennarafundi, aðstoða við kennslu og fá æfingu í að kenna sjálfir undir handleiðslu leiðsagnarkennara sem eru starfandi kennarar við Kvennaskólann. Verkefnastjóri kennaranema er Sigríður María Tómasdóttir.

Þetta skólaár eru í Kvennaskólanum átta kennaranemar hjá fjórum leiðsagnarkennurum. Jóhanna Kristín Jóhannesdóttir og Tómas Halldórsson Alexander eru hjá Haraldi Gunnarssyni jarðfræðikennara. Kristín María Kristinsdóttir og Kristín Nanna Einarsdóttir eru hjá Sigrúnu Steingrímsdóttur íslenskukennara. Sveina Hjördís Þorvaldsdóttir og Ásthildur Hanna Ólafsdóttir kenna félagsvísindi hjá Þórði Kristinssyni og að lokum eru þær Heiðrún Anna Sigurðardóttir og Hólmfríður Svala Ingibjargardóttir hjá Ólínu Ásgeirsdóttur uppeldisfræðikennara.

Í síðustu viku var fyrri æfingakennslulotan hjá hópnum þar sem kennaranemarnir sáu sjálfir um allan undirbúning, skipulag og framkvæmd í kennslustofunni. Þau nýttu tímann vel og prófuðu ólíkar kennsluaðferðir. Til dæmis gerðu 2. árs nemendur í uppeldisfræði teiknimyndasögur út frá lesefninu, flokkuðu barnabækur og bjuggu til nýjar hugmyndir að bókum út frá breyttu fjölskyldumynstri. Í jarðfræði ákváðu kennaranemarnir að prófa aðferðir í anda “hugsandi kennslustofa” (e. Thinking Classrooms) þar sem nemendur unnu verkefnin víðs vegar um kennslustofuna á sex tússtöflum. Einnig skoðuðu þau mismunandi tegundir eldfjalla út frá myndefni eins og það birtist okkur í ýmsu afþreyingarefni og skoðuðu atburðina á Reykjanesi með “jarðfræði-gleraugunum”. Í íslensku tóku nemendur þátt í að búa til Njálu- Trivial sem þau spiluðu síðan í lok vikunnar ásamt því að skoða lýsingar á söguhetjum út frá kynjafræðilegum pælingum. Í félagsvísindum notuðu kennaranemar meðal annars aðleiðsluaðferðir í fjölbreyttri kennslu á 1. og 3. ári , til dæmis í umræðum og greiningu á margs konar hugtökum og málefnum í þjóðfélaginu.

Mjög gagnleg vika að baki og við erum þakklát fyrir okkar frábæru kennaranema. Þetta er dýrmætt samstarf og gefur kennaranemum, starfsfólki okkar og nemendum fjölbreytt kennsluumhverfi og stuðlar að mikilvægri skólaþróun í landinu.