- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Það skiptust á skin og skúrir þegar nemendur á 2. ári héldu peysufatadaginn hátíðlegan þann 31. mars síðastliðinn. Dagurinn heppnaðist frábærlega og þökk sé veðrinu þá upplifði hópurinn sannkallaða töfrastund þegar þau fengu skjól inni í Hallgrímskirkju í miðri dagskrá.
Dagurinn hófst á því að hópurinn marseraði frá Arnarhóli og inn í port Mennta- og barnamálaráðuneytisins við Sölvhólsgötu þar sem var dansað og sungið fyrir starfsmenn ráðuneytisins. Að lokinni dagskrá á Hallgrímstorgi á Skólavörðuholtinu var hópnum boðið inn í kirkjuna þar sem séra Sigurður Árni Þórðarson tók á móti hópnum. Svo skemmtilega vildi til að þessi dagur var einmitt síðasti starfsdagur hans í Hallgrímskirkju og þá er hann líka faðir tveggja nemenda í hópnum. Hópur landsþekktra listamanna var að undirbúa tónleika og sungu þau og spiluðu undir á hljóðfæri hjá hópnum okkar í kirkjunni. Í góðu veðri hefði hópurinn eingöngu dansað á torginu fyrir framan kirkjuna þannig að við viljum meina að hópurinn hafi verið einstaklega heppinn með veður!
Hefðbundin dagskrá var í porti Miðbæjarskóla fyrir gesti, nemendur og starfsfólk Kvennaskólans. Eftir hádegi var dagskrá fyrir heimilisfólk á Grund, á Ingólfstorgi og loks í Þjóðminjasafninu. Þetta var í fyrsta sinn sem peysufatadagshópur heimsækir safnið en forsvarsmenn safnsins höfðu frumkvæði að því að bjóða hópnum að koma og þiggja kakó og kleinur til að hrósa þessari hefð skólans. Í þakklætisskyni söng hópurinn nokkur lög í anddyri safnins sem reyndist hinn besti tónleikasalur.
Mjög ánægjulegt var að sjá þjóðlega búninga frá fleiri löndum í nemendahópnum. Það endurspeglar fjölmenninguna sem við erum þakklát fyrir í skólanum og verður vonandi enn meira áberandi á peysufatadögum framtíðarinnar.
Reynir Jónasson harmonikkuleikari fylgdi hópnum allan daginn sem og Lilja Dögg Gunnarsdóttir kórstjóri og Margrét Helga Hjartardóttir en þær Margrét og Lilja hafa veg og vanda af öllum undirbúningi og dagskrá þessarar dýrmætu hefðar í skólanum. Kolfinna Jóhannesdóttir skólameistari og Ásdís Arnalds aðstoðarskólameistari fylgdu líka hópnum allan daginn og þrír fyrrum skólameistarar mættu í Miðbæjarskólann til að upplifa hátíðina með okkur. Þetta eru þau Aðalsteinn Eiríksson, Ingibjörg S. Guðmundsdóttir og Hjalti Jón Sveinsson. Við tölum gjarnan um að peysufatadagurinn sé vorboðinn okkar hér í skólanum og sérlega gaman að sjá fyrrum starfsmenn gleðjast með okkur.
Smellið endilega á ljósmyndirnar hér að neðan til að þær verði skýrari. Við viljum þakka Atla Mar Gunnarssyni, Hermanni Þór Snorrasyni, Sigurði Árna Þórðarsyni og Þjóðminjasafni Íslands fyrir þeirra myndefni.
Peysufatadagurinn – sagan í stuttu máli
Þegar Kvennaskólinn var stofnaður árið 1874 var venjan að nemendur væru í íslenskum búningi í skólanum. Með tímanum breyttist það eins og annað og þegar kom fram um 1920 gengu aðeins sumar stúlknanna í slíkum búningi í skólanum. Vorið 1921 ákváðu nemendur skólans að koma á peysufötum til skólans til hátíðabrigða og gera sér dagamun á eftir. Síðan þá hefur peysufatadagurinn jafnan verið endurtekinn einu sinni á skólaári með vaxandi viðhöfn. Þessi hefð er því orðin rúmlega hundrað ára gömul og þykir ómissandi liður í skólastarfinu.