- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Þann 14. september sl. var skjalasafn Kvennaskólans í Reykjavík formlega afhent Þjóðskjalasafni Íslands til varðveislu. Skjalasafnið er um 17 hillumetrar að umfangi og nær yfir tímabilið 1873-1999. Skólinn sem var stofnaður árið 1874 er með elstu skólum landsins og því um einstakar heimildir að ræða. Elstu skjölin eru frá árinu 1873 og varða undirbúning að stofnun skólans sem hjónin Þóra og Páll Melsteð stóðu fyrir. Í skjalasafninu er m.a. finna upplýsingar um samskipti fyrstu forstöðukvenna skólans, skólameistara og skólanefndar við yfirvöld á hverjum tíma. Má þar nefna helst yfirvöld menntamála, borgaryfirvöld og fleiri aðila um stofnun skólans, stöðu hans og starfsemi, en einnig um kennslu, námsefni og prófhald, nemendaskrár, kennara og kjaramál. Þá er einnig að finna í skjalasafninu upplýsingar um rekstur skólans í gegnum tíðina, fjárhag og sjóði skólans, húsbyggingar og arkitektateikningar, ýmis konar heimildir um nemendur og félagslíf þeirra ásamt ljósmyndum af nemendum og starfsfólki skólans við ýmis tilefni. Meðal athyglisverðra skjala er bera vitni um skólabrag, skólahald og tíðaranda um aldamótin 1900, eru skólareglur sem voru hafðar í heiðri í skólastarfinu á þeim tíma, s.s. hegðunarreglur, reglur fyrir Húsmæðradeild Kvennaskólans og heimavistareglur sem sumar hverjar héngu innrammaðar á veggjum. Þá má finna skjöl og ljósmyndir úr einkasafni forstöðukvenna, s.s. úr safni Ingibjargar H. Bjarnason og frk. Ragnheiður Jónsdóttur. Sjá nánar í upprunalegu fréttinni á vefsíðu Þjóðskjalasafns Íslands.