- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Það verður líklega seint toppað afrekið sem dúx og semidúx Kvennaskólans, unnu síðastliðið vor. Dúx skólans, Berglind Bjarnadóttir, útskrifaðist með 9,95 sem er langbesti árangur á stúdentsprófi frá upphafi. Þá var semidúx skólans, Hildur María Arnalds, með 9,84 sem fer mjög nálægt fyrra einkunnameti sem var 9,86.
Það sem gerir árangurinn enn ótrúlegri er sú staðreynd að báðar sinntu þær tímafrekum áhugamálum og félagslífi.
Berglind stundaði nám við MÍT (Menntaskóli í tónlist) öll þrjú árin og var einnig í “Gettu betur” liði skólans sem vann frækilegan sigur árið 2019 og varð í öðru sæti í keppninni 2020.
Hildur María tók mikinn þátt í leiklistarstarfi skólans öll þrjú árin og sat í stjórn nemendafélagsins sem formaður leikfélagsins Fúríu á lokaárinu. Það var gríðarleg vinna lögð í söngleikina þessi ár og ábyrgð Hildar Maríu var mikil.
Þær sópuðu að sér verðlaunum og fengu hvor sinn styrkinn til áframhaldandi náms, Berglind frá Háskólanum í Reykjavík og Hildur María frá Háskóla Íslands. Í vetur ætla þær þó báðar að hvíla sig á bóklega náminu.
Berglind ætlar að nota árið til að sinna tónlistinni fyrst og fremst. Hún stefnir á að taka bæði framhaldspróf og burtfararpróf á fagott en sinnir líka hlutastarfi í Mjólkursamsölunni. Hún ætlar svo að sjá til hvort hún taki tónlistina alla leið og geri að framtíðarstarfi en hún er líka mjög áhugasöm um erfðafræði.
Hildur María ætlar að vinna sem stuðningsfulltrúi fyrir einhverf börn í grunnskóla og á frístundaheimili í vetur. Þá hefur hún ekki alveg sagt skilið við Fúríu því líklega mun hún kenna á nokkrum spunanámskeiðum ef Covid-19 leyfir. Næsta sumar er svo stefnan sett á ferðalög og sjálfboðaliðastörf áður en hún sest aftur á skólabekk einhvern tíma í nánustu framtíð.