Ekki alltaf í kennslustofunni!


Skólaárið fer vel af stað hvað varðar vettvangsferðir og við þökkum fyrir hverja ferð því ógjörningur var að bjóða upp á slíkt eftir að Covid-19 faraldurinn hófst.

Hérna í miðbænum er nálægð við söfn og stofnanir mikill kostur, til dæmis varðandi vettvangsheimsóknir og verkefnavinnu. Kennarar nýta sér staðsetninguna vel og oft má sjá skólahópa frá okkur víðs vegar um bæinn. Nemendur í lögfræði fóru til dæmis í gönguferð um miðbæinn þar sem kennarinn sýndi þeim mikilvæga staði sem tengjast lögfræði. Til dæmis var stoppað við Stjórnarráðið, Héraðsdóm Reykjavíkur og Alþingishúsið þar sem lögfræðikennsla hófst á Íslandi.

Og þó við séum með margt hér í túnfætinum, þá eru líka farnar vettvangsferðir út fyrir miðbæinn. Sem dæmi þá fóru nemendur í íslensku í heimsókn á Gljúfrastein í Mosfellsdal, þar sem nú er safn um Halldór Kiljan Laxness og Auði Laxness. Nemendurnir voru að lesa bókina Úngfrúin góða og húsið í áfanganum og því var gott að geta glætt söguna lífi með því að heimsækja hús skáldsins.

Í hverri viku fá svo útskriftarnemendur í áfanganum Náms- og starfsval tækifæri til að skoða ýmsa skóla sem bjóða upp á fjölbreytt nám eftir stúdentspróf, svo sem tækninám, iðnnám eða háskólanám. Í síðustu viku var Háskólinn í Reykjavík heimsóttur. Þar fengum við góðar móttökur, meðal annars frá fyrrum nemendum skólans sem sögðu frá sinni upplifun af því að skipta um skólastig.

Þetta eru einungis dæmi um vettvangsferðir sem farnar eru í skólanum og við vonum svo sannarlega að þeim muni fjölga aftur nú þegar skólahald er að færast í eðlilegra horf.