Endurnærandi Njáluferð

 

Í Kvennaskólanum fara allir nemendur í vettvangsferð á Njáluslóðir. Íslenskukennarar skólans sjá um skipulag ferðanna og einn þeirra, Sverrir Árnason, skrifaði þessa skemmtilegu frásögn um nýjustu Njálu-ferðina sem farin var í síðustu viku. Gaman er að geta þess að Sverrir heldur úti kennsluvefnum https://brennunjalssaga.is/ sem við hvetjum allt áhugafólk um fornsögurnar til að kynna sér. Þar er sagan gerð aðgengileg með myndskreytingum, orðskýringum, leitarhnappi, staðakortum, ættartrjám, fjölbreyttum verkefnum og fræðilegu efni. Boðið er upp á að kaupa aðgang að hljóðbók með sögunni. En hefst nú ferðasagan: 

Þann 17. nóvember fóru 75 nemendur þriggja bekkja Kvennaskólans í hefbundna ferð á söguslóðir Njálu. Þetta voru nemendur á öðru ári sem höfðu verið að lesa Brennu-Njáls sögu og ætluðum við, eins og venjan er í þessum ferðum, að skoða nokkur meginsögusvið Njálu. Veðurspá hafði verið í tvísýnara lagi dagana áður en sem betur fer rættist úr spánni og veðrið var alveg prýðilegt þegar til kom.

Lagt var af stað á tveimur rútum frá Kvennaskólanum rétt fyrir kl. 9.00 og var fyrsti áfangastaður sögustaðurinn Keldur á Rangárvöllum. Á leiðinni upp að Keldum, en ekið var upp seinni Rangárvallaafleggjarann, gátum við rifjað upp nokkrar af helstu sögupersónun Njálu sem bjuggu á þessum slóðum. Til að mynda hinn alræmda Mörð Valgarðsson sem bjó að Hofi (Stóra-Hof í dag), Otkel sem bjó að Kirkjubæ og Skammkel sem bjó á Hofi öðru (Minna-Hof í dag). Að Keldum bjó svo Ingjaldur sem var bróðir Hróðnýjar en með henni átti Njáll launsoninn Höskuld.

Á Keldum er afar fallegur torfbær sem Þjóðminjasafnið hefur staðið að því að gera upp. Er hann eini stóri torfbærinn sem varðveist hefur á Suðurlandi. Það vantaði ekkert upp á áhugann og gleðina hjá hópnum og eftir drjúga stund þar vorum við kennarar eins og smalar að smala fé inn í rúturnar til þess að geta haldið ferðinni áfram. Frá Keldum var haldið upp að Gunnarssteini þar sem Gunnar og bræður hans, Kolskeggur og Hjörtur, háðu bardaga við 30 manna lið með Þorgeir Starkaðarson í fararbroddi. Í þeim bardaga dó Hjörtur en 14 úr liði Þorgeirs. Tekin var hópmynd af nemendum og kennurum við Gunnarsstein, sjá mynd.

Frá Gunnarssteini var svo farið inn á Hvolsvöll og á Sögusetrið sem hýsir Njálusýninguna. Þar gátu nemendur valið hvort þeir snæddu hamborgara, grísasamloku eða veganborgara og auðvitað franskar og gos með. Á Sögusetrinu er hægt að labba í gegnum Njálusýninguna, skoða áhugaverðar myndir með fyrirmyndum úr Njálu og lesa texta með þeim, einnig var hægt að fara í axarkast, píluast eða billjard, nota trésverð og skildi og berjast að góðum og gömlum sið eða bara slappa af í mjúkum sófum.

Það var saddur og glaður hópur sem lagði svo af stað frá Sögusetrinu inn Fljótshlíðina þar sem halda átti að Hlíðarenda Gunnars Hámundarsonar. Þegar þangað var komið var ekki hægt að aka upp heimreiðina að bænum þar sem verið var að endurbæta veginn. Hópurinn lét sér því nægja að horfa á hina fögru hlíð neðan frá veginum. Og allir skildu af hverju Gunnar sagði: „Fögur er hlíðin og mun ég hvergi fara“ en sú ákvörðun átti síðar eftir að reynast banabiti hinnar miklu hetju.

Lokaviðkomustaður okkar var Gluggafoss sem er innar í Fljótshlíðinni. Gluggafoss er geysitignarlegur og fallegur og skemmtu nemendur sér vel við að skoða hann og skottast um, bæði við aðalfossinn sem og neðri fossinn sem hægt var að fara á bak við.

Það var glaður hópur sem safnaðist svo í rúturnar í lokin þar sem haldið var heim á leið, bæði var sungið í rútunni og spiluð jólalög í gegnum öflugan ferðahátalara. Í bæinn komum við rétt fyrir klukkan fjögur, endurnærð eftir góða ferð og tilbúinn að klára önnina með stæl!