- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Frönskudeild Kvennaskólans er í samstarfi við franskan menntaskóla, l‘Institution Robin og er verkefnið styrkt af Erasmus+ áætluninni. 26 nemendur á 2. ári taka þátt í þessu samstarfi sem felst m.a. í því að skólarnir skiptast á heimsóknum. Íslenski hópurinn dvaldi í Vienne, sem er borg rétt suður af Lyon, dagana 10.-18. mars ásamt frönskukennurunum sínum, Jóhönnu Björk Guðjónsdóttur og Margréti Helgu Hjartardóttur. Þar hittu þau frönsku nemendurna og gistu á heimilum þeirra. Dvölin hófst á því að þau eyddu helginni með frönsku fjölskyldunum og gerðu margt skemmtilegt með þeim. Frá mánudegi til föstudags var stíf dagskrá. Nemendur okkar fengu að kynnast frönsku skólahaldi, fara í skoðunarferðir og á söfn, svo dæmi séu nefnd. Þau fengu ekki síst innsýn í sögu þessa svæðis þar sem leynast m.a. töluverðar rómverskar minjar. Ráðhúsið bauð þeim í stutta móttöku þar sem íslenski fáninn blakti við hún og aðstoðarkona borgarstjóra gaf þeim öllum fallega bók um Vienne. Þau sóttu líka stutt námskeið í franskri matargerðarlist sem féll heldur betur í kramið.
Hópurinn flaug til Parísar og tók hraðlest þaðan til áætlunarstaðar. Flogið var heim frá Genf, svo nemendur fengu sem aukabónus tækifæri til að líta við í Sviss í örstutta stund.
Ekki þarf að fjölyrða um hversu þroskandi svona samstarf er fyrir alla, bæði nemendur og kennara. Nemendur okkar stóðu sig vel í krefjandi aðstæðum. Þetta voru þeirra fyrstu beinu kynni af Frökkunum og þau þurftu að bjarga sér á frönsku og ensku og upplifa margar nýjungar. Hópurinn kynntist smám saman og nú bíðum við spennt eftir heimsókn Frakkanna sem munu dvelja hjá okkur dagana 19.-26. apríl. Þá munu þau fá margvísleg tækifæri til að kynnast landi og þjóð.
Leyfum nokkrum myndum að bæta við þessa frásögn.