- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Ein af elstu hefðum skólans er svokallaður epladagur sem fagnar hundrað ára afmæli í ár. Síðustu áratugi hefur hefðin teygt sig yfir á heila viku þar sem nemendur og kennarar gera sér dagamun.
Mikil tilhlökkun var fyrir eplavikunni, sérstaklega þar sem ekki var mögulegt að halda hátíðina í fyrra vegna covid-19 faraldursins. Það voru því mikil vonbrigði þegar smitum fór að fjölga aftur og blása þurfti sjálft eplaballið af í aðdraganda vikunnar.
Haldið var upp á aðra atburði en með lágstemmdari hætti en oft áður. Nemendur og starfsfólk skólans eiga mikið hrós skilið fyrir að gera gott úr hlutunum. Allir lögðust á eitt svo hægt væri að gleðjast saman.
Nemendur og starfsfólk klæddust rauðu á fimmtudaginn og var "rauðasti kvenkælingurinn" valinn. Stjórn Keðjunnar heimsótti alla bekki með gómsæt epli í farteskinu og fræddu nemendur um sögu epladagins. Nemendur kepptu um besta eplalagið og fréttanefndin Drollan gaf út eplablað.
Eplakvöld var haldið á fimmtudag og þurftu allir þátttakendur að fara í hraðpróf til að mega taka þátt í gleðinni. Lokaatburðurinn var svo náttfatadagur á föstudegi.
Í vikulok er þakklæti okkur ofarlega í huga. Við erum einstaklega rík af úrræðagóðu fólki sem gerir svo margt gott fyrir kvennósamfélagið okkar.