- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Alþjóðlegt samstarf hefur lengi skipað stóran sess í skólastarfinu okkar í Kvennaskólanum. Starfsfólk og nemendur hafa sýnt mikinn metnað í hinum ýmsu verkefnum og er slíkt samstarf orðinn ómissandi þáttur í skólastarfinu.
Eitt slíkra verkefna, Student Voices: revitalising the school system, hlaut í gær Evrópuverðlaun fyrir nýsköpun í kennslu. Verkefnið var samstarfsverkefni grunn- og framhaldsskóla í þremur löndum; Íslandi, Danmörku, og Finnlandi. Ásamt okkur, tók Landakotsskóli þátt í verkefninu á Íslandi ásamt Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar auk þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.
Hér í Kvennaskólanum tóku Ásdís Ingólfsdóttir, Alexandra Viðar, Ásdís Arnalds, Hildigunnur Gunnarsdóttir og Þórdís Eyvör Valdimarsdóttir þátt í verkefninu. Verkefnið miðaði að því að finna nýjar leiðir í nálgun og kennslu raungreina með því að koma á opnu samtali milli kennara og nemenda og gefa nemendum þannig rödd í eigin námi. Auk þess var ýmsum aðferðum beitt til að hlusta á raddir nemenda, vinna með þær og þróa kennsluaðferðir. Verkefnið er verðlaunað fyrir að vera vel heppnað dæmi um hvernig kennarar geti tileinkað sér nýjar aðferðir og nemendur tekið virkari þátt í námi sínu og þannig tekið enn meiri ábyrgð á því. Fyrir áhugasama bendum við á stutt kynningarmyndband og vefsíðu um verkefnið, https://www.studentvoices.eu/